Ísland getur endað í efsta og neðsta sæti

Vonbrigðin eftir tapið gegn Ungverjalandi á laugardagskvöldið voru mikil en …
Vonbrigðin eftir tapið gegn Ungverjalandi á laugardagskvöldið voru mikil en þrátt fyrir þau úrslit gæti Ísland enn endað í efsta sæti D-riðils. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland getur bæði endað í efsta og neðsta sætinu í D-riðli heimsmeistaramóts karla í handbolta en það skýrist í kvöld þegar lokaumferðin fer fram.

Ungverjaland er með 4 stig, Ísland 2, Portúgal 2 en Suður-Kórea ekkert. Ísland leikur við Suður-Kóreu klukkan 17 og Ungverjaland mætir Portúgal klukkan 19.30.

Það versta sem gæti gerst væri að Ísland tapaði fyrir Suður-Kóreu og Portúgal næði í stig gegn Ungverjalandi. Þá yrði Ísland neðst í riðlinum og færi í keppnina um forsetabikarinn þar sem leikið er um sæti 25-32 á mótinu. Allir leikir í þeirri keppni fara fram í Plock í Póllandi.

Ísland getur aftur á móti unnið riðilinn með sigri á Suður-Kóreu, ef Portúgal vinnur Ungverjaland. Reynar myndu Portúgalar sjálfir vinna riðilinn ef þeir vinna leikinn með minnst sex marka mun.

En þetta snýst meira um stigin sem liðið tekur með sér áfram í milliriðilinn, heldur en hvort það endar í fyrsta, öðru eða þriðja sæti.

Þegar er ljóst að fari íslenska liðið á annað borð áfram, fer það með sigurinn gegn Portúgal og tapið gegn Ungverjalandi með sér í milliriðilinn, sem sagt tvö stig. 

Það kann því að skipta afar miklu máli hvort Ungverjar fara áfram með fjögur stig og Portúgal ekkert, eða hvort Ísland, Ungverjaland og Portúgal hefji öll keppni í milliriðli með tvö stig.

Svíþjóð byrjar milliriðilinn með fjögur stig en Brasilía og Grænhöfðaeyjar taka með sér stigin úr innbyrðis leik þeirra í lokaumferð C-riðilsins sem fer fram í dag.

Keppni í milliriðlinum hefst á miðvikudaginn í Gautaborg og í kvöld verður komið á hreint hvort Ísland leikur þar fyrsta leikinn gegn Grænhöfðaeyjum, Svíþjóð eða Brasilíu. Svo framarlega sem liðið þarf ekki að fara til Póllands og spila um forsetabikarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert