Ísland með bakið upp við vegg í Tilburg

Frá leik Íslands og Belgíu.
Frá leik Íslands og Belgíu. Ljósmynd/Stefán Örn Sigurðsson

Karlalandslið Íslands í íshokkí leikur fjórða leik sinn í 2. deild heimsmeistaramótsins í Tilburg kl. 11 í dag. Andstæðingurinn er Kína, en bæði lið eru án stiga fyrir leikinn. Ráðist úrslitin í venjulegum leiktíma, er tapliðið fallið niður í B-riðil og sigurliðið verður áfram í A-riðli á næsta ári. Fari hins vegar svo að úrslitin ráðist í framlengingu mun það ráðast í fimmtu og síðustu umferðinni hvaða þjóð fellur og getur Belgía þá blandast í fallslaginn, en Belgar eru með þrjú stig eftir þrjá leiki. Ísland mætir Serbíu í síðustu umferðinni annað kvöld.

Fari svo að Ísland tapi og falli niður í B-riðil, verður það í fyrsta skipti síðan árið 2011 sem íslenska landsliðið verður ekki í A-riðli deildarinnar.

Ísland hefur verið með fín tök á Kína á síðustu árum og unnið þrjá leiki á móti stórþjóðinni í röð. Síðasta viðureign liðanna var á Spáni árið 2016 og vann Ísland þá 7:4. Þá hafnaði Kína í neðsta sæti riðilsins og féll niður í B-riðil, en það var eini sigur Íslands á mótinu. Íslenskt landslið hefur því áður bjargað sér frá falli með því að vinna Kína. Kínverjar unnu alla leiki sína í B-riðlinum í Nýja Sjálandi í fyrra og fóru beint aftur upp í A-riðilinn. Á mótinu í Tilburg hefur Kína náð betri árangri á móti þeim þjóðum sem bæði Kína og Ísland hafa mætt. Ísland tapaði 11:1 á móti Hollandi og Kína tapaði 7:0 fyrir sama andstæðingi. Kínverjar voru svo nálægt því að ná í úrslit á móti Áströlum, en þurftu að lokum að sætta sig við 3:1-tap. Ísland tapaði 3:0 á móti Ástralíu í 1. umferðinni. Ísland verður því að spila vel til að ná í úrslit og forðast fall.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert