Stefán í Breiðholtið

Stefán Karel Torfason í leik með Snæfelli.
Stefán Karel Torfason í leik með Snæfelli. mbl.is/Árni Sæberg

Körfuknattleiksmaðurinn Stefán Karel Torfason er genginn til liðs við ÍR-inga og hefur samið við þá fyrir næsta keppnistímabil en hann spilaði með Snæfelli í vetur.

Stefán, sem er ríflega tveggja metra hár framherji, 21 árs gamall, tók 10,4 fráköst að meðaltali í leik með Snæfelli í vetur og skoraði 11,6 stig að meðaltali en hann spilaði 19 af 22 leikjum Hólmara í deildinni. Hann spilaði fyrst með Þór á Akureyri og lék þar kornungur tvö tímabil með meistaraflokki en var að ljúka sínu fjórða tímabili með Snæfelli.

mbl.is