Keflavík bikarmeistari annað árið í röð

Keflvíkingar lyfta bikarnum á loft eftir sigur sinn gegn Njarðvík ...
Keflvíkingar lyfta bikarnum á loft eftir sigur sinn gegn Njarðvík í bikarúrslitum í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Keflavík varð bikarmeistari í 15. sinn og annað árið í röð þegar liðið vann granna sína í Njarðvík, 74:63, í úrslitaleik Maltbikars kvenna í körfubolta í Laugardalshöllinni í dag.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað á meðan liðin reyndu að finna taktinn en Keflvíkingar tóku þó frumkvæðið í fyrsta leikhluta. Var það fyrst og fremst vegna þess að skotnýting liðsins var miklu, miklu betri. Njarðvíkingar höfðu mikið fyrir því að koma sér í færi og nýttu þau svo illa en liðið hitti aðeins einu af hverjum fjórum skotum sínum framan af leik.

Keflvíkingar voru yfir nær allan fyrri hálfleikinn eða alveg þangað til á lokamínútunni þegar Njarðvík jafnaði metin og var staðan 35:35 í hléinu. Shalonda Winton átti stórleik fyrir sitt lið og var hreinlega allt í öllu í sókninni, enda skoraði hún 37 stig í leiknum alls.

Keflvíkingar héldu áfram að hafa frumkvæðið í síðari hálfleiknum en aldrei tókst þeim að slíta sig almennilega frá baráttuglöðum grönnum sínum. Að sama skapi tókst Njarðvík illa að snúa taflinu við, liðið náði að jafna metin nokkrum sinnum en tókst aftur á móti aldrei að komast yfir. Brittanny Dinkins var mátulega róleg í sóknarleiknum í dag en hún skoraði 6 stig fyrir Keflavík. Aftur á móti var hún frábær í vörninni, átti níu varnarfráköst og lét Njarðvíkinga finna vel fyrir því.

Njarðvíkingar gáfust ekki upp og reyndu hvað þeir gátu til að jafna en allt kom fyrir ekki þótt Winton hafi á köflum kjöldregið liðið með ótrúlegri frammistöðu sinni. Reynslan og gæðin í Keflavík dugðu að lokum til en Embla Kristínardóttir, sem kom til félagsins fyrir jól, átti mjög góðan leik og hefur nú þegar reynst mikill fengur fyrir Keflavík.

Gangur leiksins: 4:1, 6:6, 10:9, 15:12, 22:17, 25:20, 33:26, 35:35, 37:37, 44:39, 44:43, 51:46, 61:51, 63:58, 71:63, 74:63.

Keflavík: Embla Kristínardóttir 20/6 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 16/9 fráköst/5 stoðsendingar, Brittanny Dinkins 16/11 fráköst/8 stoðsendingar/5 stolnir, Irena Sól Jónsdóttir 6, Erna Hákonardóttir 6, Birna Valgerður Benónýsdóttir 5/6 fráköst, Kamilla Sól Viktorsdóttir 5.

Fráköst: 27 í vörn, 9 í sókn.

Njarðvík: Shalonda R. Winton 37/23 fráköst/3 varin skot, Erna Freydís Traustadóttir 7, Björk Gunnarsdótir 6/4 fráköst, Hrund Skúladóttir 5/4 fráköst, Hulda Bergsteinsdóttir 4, Aníta Carter Kristmundsdóttir 3, María Jónsdóttir 1/4 fráköst.

Fráköst: 30 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jóhannes Páll Friðriksson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Embla Kristínardóttir, leikmaður Kefavíkur, sækir að körfu Njarðvíkur í bikarúrslitaleik ...
Embla Kristínardóttir, leikmaður Kefavíkur, sækir að körfu Njarðvíkur í bikarúrslitaleik liðanna í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Keflavík 74:63 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is