Tindastóll bikarmeistari í fyrsta skipti

Leikmenn Tindastóls fagna bikarmeistaratitlinum eftir sigur gegn KR í dag.
Leikmenn Tindastóls fagna bikarmeistaratitlinum eftir sigur gegn KR í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Tindastóll er bikarmeistari karla í körfubolta eftir stórkostlegan 96:69-sigur á KR í bikarúrslitum í Laugardalshöllinni í dag. Sauðkrækingar skutu KR-inga einfaldlega í kaf og skoruðu 16 þriggja stiga körfur á móti aðeins sex hjá KR.

Það er óhætt að segja að byrjun Tindastólsmanna hafi verið mögnuð. Fyrstu 14 stig leiksins voru þeirra. Þriggja stiga skotin duttu, varnarleikurinn virkaði og stemningin í stúkunni var mögnuð. Hinum megin gekk lítið sem ekkert í sóknarleik KR. Hvað eftir annað köstuðu KR-ingar boltanum beint í hendur leikmanna Tindastóls sem refsuðu hinum megin. KR-ingar löguðu stöðuna aðeins eftir því sem leið á leikhlutann og var staðan eftir hann 28:16, Tindastóli í vil.

Það var hins vegar svipað upp á teningnum í 2. leikhluta. Stólarnir skutu KR-inga í kaf fyrir utan þriggja stiga línuna á meðan fátt fór ofan í hjá KR og margar sóknir enduðu með sendingum sem fóru beint í hendurnar á leikmönnum Tindastóls. Staðan í hálfleik var 57:33, Tindastóli í vil. Það virtist engu skipta hver skaut fyrir utan; það fór allt ofan í. Sigtryggur Arnar Björnsson var í villuvandræðum og spilaði því minna en oft áður, en hann nýtti þann tíma sem hann fékk gríðarlega vel.

KR lagaði stöðuna aðeins í 3. leikhluta með betri sóknarleik og betri leik hjá Jóni Arnóri Stefánssyni, en Tindastólsmenn hittu sem áður ágætlega hinum megin og komu í veg fyrir að KR-ingar ógnuðu forskotinu verulega. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 72:53.

Sýningin hélt áfram hjá Tindastóli í 4. leikhluta og varð munurinn mest 30 stig í stöðunni 92:62. Síðustu mínúturnar reyndust formsatriði fyrir Tindastól sem vann sinn fyrsta stóra titil í sögunni. 

Gangur leiksins: 0:11, 5:19, 11:19, 16:28, 19:36, 21:41, 27:49, 33:57, 39:59, 43:65, 50:71, 53:72, 56:80, 60:82, 60:89, 69:96.

KR: Björn Kristjánsson 22, Jón Arnór Stefánsson 15, Kristófer Acox 13/12 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 10/4 fráköst, Orri Hilmarsson 3, Sigurður Á. Þorvaldsson 2, Darri Hilmarsson 2/5 fráköst, Brandon Penn 2/6 fráköst.

Fráköst: 23 í vörn, 12 í sókn.

Tindastóll: Pétur Rúnar Birgisson 22/7 fráköst/8 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 20/7 fráköst, Antonio Hester 14/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 11/5 fráköst, Hannes Ingi Másson 7/6 fráköst, Viðar Ágústsson 6, Brandon Garrett 5/5 fráköst, Axel Kárason 3/6 fráköst, Finnbogi Bjarnason 3, Friðrik Þór Stefánsson 3/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 2.

Fráköst: 32 í vörn, 15 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Gardarsson, Kristinn Óskarsson.

Kristófer Acox, leikmaður KR, og Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, ...
Kristófer Acox, leikmaður KR, og Sigtryggur Arnar Björnsson, leikmaður Tindastóls, berjast um boltann í leik liðanna í dag. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
KR 69:96 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is