Ingi Þór að taka við KR?

Ingi Þór Steinþórsson.
Ingi Þór Steinþórsson. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Útlit er fyrir að Ingi Þór Steinþórsson muni á morgun taka við uppeldisfélagi sínu KR, liðinu sem orðið hefur Íslandsmeistari karla í körfuknattleik síðustu fimm ár. 

Ingi Þór fundaði með KR-ingum í dag samkvæmt heimildum mbl.is. KR hefur nú boðað til blaðamannafundar á morgun og því er afar líklegt að tekist hafi að semja við Inga um að taka við KR á ný. 

Ingi gerði KR að Íslandsmeisturum karla árið 2000 og er uppalinn í félaginu. Hann var einnig aðstoðarþjálfari þegar KR varð meistari árið 2009.

Hann fór í Stykkishólm sumarið 2009 og hefur búið þar síðan. Gerði hann karlalið Snæfells að tvöföldum meisturum árið 2010 og gerði kvennalið Snæfells að Íslandsmeisturum þrjú ár í röð, 2014 - 2016. 

Langt er síðan KR hefur skipt um þjálfara en árið 2013 gerði félagið fimm ára samning við Finn Frey Stefánsson. Hann ákvað að láta gott heita á dögunum eftir að hafa unnið Íslandsmótið öll fimm skiptin. 

Ekki er ljóst hvernig leikmannahópur KR verður skipaður en þó liggur fyrir að Brynjar Þór Björnsson leikur með Tindastóli og Darri Hilmarsson flyst búferlum til Svíþjóðar. Þá er ekki ólíklegt að Kristófer Acox muni reyna fyrir sér í atvinnumennsku en það kemur í ljós í sumar. 

mbl.is