Gunnar hefur átt stórkostlegt tímabil

Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson landsliðsþjálfarar á æfingu í …
Craig Pedersen og Finnur Freyr Stefánsson landsliðsþjálfarar á æfingu í vikunni. mbl.is/Eggert

„Það má líklega segja sem svo að við séum með bakið uppi við vegg. Ef Belgía vinnur báða leiki í þessum glugga er liðið öruggt um efsta sætið. Við þurfum því að vinna núna,“ segir Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta.

Ísland tapaði naumlega fyrir Portúgal í fyrsta leik sínum í forkeppni EM, í september, en þá vann Belgía eins stigs sigur á Portúgal. Eitt þessara liða kemst beint áfram í undankeppni EM.

„Belgarnir eru með mjög sterkt lið núna, sterkara en þegar þeir mættu Portúgal. Þeir virðast ætla að leggja allt í sölurnar. Það er svekkjandi fyrir okkur að vera ekki með Martin [Hermannsson] en það að hafa Hauk [Helga Pálsson] og Jón [Arnór Stefánsson], samanborið við síðasta leik, hjálpar okkur mikið. Við verðum að leggja hart að okkur og vera klárir í slaginn,“ segir Pedersen.

Ísland mætti Belgíu árið 2016 í undankeppni EM og vann 6 stiga sigur í Laugardalshöll, og svo í tveimur vináttulandsleikjum í fyrra og vann sigra:

„Það er varla hægt að bera saman liðið sem þeir eru með núna og það sem kom hingað í fyrra. Þá voru þeir bara með einhverja fjóra leikmenn sem voru í EM-hópnum þeirra. Liðið þeirra er mikið, mikið sterkara núna. Þetta er kannski svipað lið og þegar við mættum þeim í undankeppni EM sumarið 2016, en þó aðeins sterkara. Yngri leikmennirnir hafa þróast vel og mikið, sérstaklega hávaxni miðherjinn þeirra sem hefur tekið miklum framförum. Svo eru þeir með alla aðalbakverðina sína núna. Þetta er því mjög sterkt lið en við verðum að bíta vel frá okkur á heimavelli og vonandi gera þeim erfitt fyrir,“ segir Pedersen.

Þurfa að vera djarfir í sínum leik

Ísland er án Martins Hermannssonar og Kára Jónssonar vegna meiðsla, og óvíst er hve mikinn þátt Haukur Helgi og Kristófer Acox geta tekið vegna meiðsla:

„Nú fá leikmenn tækifæri og verða að nýta það. Þeir þurfa að vera djarfir í sínum leik. Þeir geta ekki bara verið í því að rétta boltann áfram, heldur þurfa þeir að skjóta úr sínum færum og keyra að körfunni þegar færi gefst. Það væri gott að geta gefið þeim mínútur í svona stórleik og vonandi ná þeir að búa til eitthvað gott.

Svona er þetta bara. Önnur lið þurfa að eiga við svona meiðsli líka, en við höfum kannski ekki sömu breidd og aðrir. Við eigum hins vegar leikmenn sem eru á uppleið, eru að verða betri. Til að mynda Gunnar [Ólafsson] sem hefur átt stórkostlegt tímabil hingað til með Keflavík. Ef hann fær tækifæri í leiknum mun hann vonandi geta sýnt hvað hann kann,“ segir Pedersen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert