„Stefnum á einn í viðbót“

„Það er gaman að tékka þetta út af listanum. Þetta hefur aldrei verið gert áður hjá félaginu og það er gaman að vera hluti af þeim fyrsta,“ segir Tómas Þórður Hilmarsson eftir að hafa fagnað fyrsta deildarmeistaratitlinum í sögu körfuknattleiksliðs Stjörnunnar.

Stjarnan hefur nú orðið bikarmeistari og deildarmeistari í vetur og er allt eins líkleg til að landa Íslandsmeistaratitlinum einnig.

„Miðað við mannskapinn sem við erum með þá fannst mér þetta alveg mögulegt í haust, og við stefnum á einn í viðbót. Þessi bikar skiptir ekki öllu máli, en við fáum fyrsta sætið sem þýðir heimavallarréttur út úrslitakeppnina og það er gott. En það er meira fram undan,“ segir Tómas sem er tilbúinn í einvígið við Grindavík í 8-liða úrslitum en það hefst eftir viku:

„Við erum nýbúnir að spila við þá og það gekk ágætlega. Þeir munu örugglega endurskipuleggja sig eitthvað og eiga örugglega betri leik en síðast því þeir voru ekkert sérstakir. En ég hlakka bara til, þetta verður gaman,“ segir Tómas.

mbl.is