Þetta eru skot í hita leiksins

Michele Di Nunno var sterkur í kvöld.
Michele Di Nunno var sterkur í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson

„Ég einbeitti mér að því að spila betri vörn og stjórna leiknum betur," sagði Michele Di Nunno, leikmaður KR, í samtali við mbl.is eftir 98:89-sigur á Þór Þ. í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta. 

Di Nunno skoraði meira í síðasta leik, en þrátt fyrir það var hann ánægðri með eigin frammistöðu í kvöld. Hann var einnig ánægður með spilamennsku KR-inga sem heild. 

„Ég tók 13 þriggja stiga skot í síðasta leik og það getur hægt á leiknum okkar. Ég reyndi að velja skotin mín betur í kvöld. Ég tók einhver léleg skot en mér fannst ganga betur hjá mér sem leikstjórnandi og ég náði að koma öðrum leikmönnum betur inn í leikinn.

„Allir spiluðu vel í dag og ég er ánægður með að ná í sigurinn. Vörnin okkar var góð, þótt við fengum 89 stig á okkur. Við stjórnuðum hraðanum í leiknum betur og gerðum vel í að dekka Kinu einn á einn."

KR-ingar hafa ráðið illa við Kinu Rochford í einvíginu til þessa, en þeir gerðu vel í að verjast honum í kvöld. 

„Það er mjög erfitt að spila við Kinu. Hann er góður leikmaður. Við höfum skoðað hann vel og við vitum hvað hann vill gera þegar hann er með boltann. Það skipti engu hver var að dekka Kinu í kvöld, það stóðu sig allir vel," sagði Di Nunno. Hann og Rochford áttu einhver orðskipti nokkrum sinnum í leiknum. 

„Þetta eru skot í hita leiksins. Ég þekki Kinu og ég þekkti hann áður en hann kom inn í deildina. Þetta lítur kannski illa út fyrir stuðningsmenn, en þetta eru bara skemmtileg skot á milli. Okkur er stundum heitt í hamsi, en ég vil vinna og hann vill vinna," sagði Di Nunno. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert