Stjarnan féll ekki í sömu gildru

Ægir Þór Steinarsson í leiknum í gær.
Ægir Þór Steinarsson í leiknum í gær. /Hari

 Úrslitin í viðureign Stjörnunnar og ÍR í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta ráðast í oddaleik í Garðabænum á fimmtudaginn kemur. Stjarnan vann sterkan 90:75-sigur í Breiðholtinu í gær og jafnaði í 2:2 í einvíginu.

Stjarnan skoraði aðeins 62 stig á heimavelli í þriðja leik liðanna og var allt annað að sjá sóknarleik Stjörnumanna í gær. Stærsta ástæða þess var landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson, en hann átti magnaðan leik. Ægir fór fyrir sínum mönnum og skoraði 34 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að Ægir hafði engan áhuga á að fara í sumarfrí og skoraði hann góða þrista á milli þess sem hann prjónaði sig í gegnum vörn ÍR og skoraði. Ægir var kominn með 17 stig snemma í öðrum leikhluta og bætti hann hægt og örugglega við út allan leikinn.

ÍR-ingar yfirspenntir

ÍR hefði tryggt sér sæti í úrslitum með sigri í gær og var andrúmsloftið í Breiðholtinu rafmagnað. Húsið var troðfullt tæpum klukkutíma fyrir leik og var ljóst að leiksins hafði verið beðið með eftirvæntingu. Það jók pressuna á ÍR og virtust leikmenn liðsins yfirspenntir í byrjun leiks. Þeir brutu klaufalega af sér og hittu ekki úr skotum sem venjulega fara niður.

Með góðum leik Ægis náði Stjarnan snemma tíu stiga forskoti og var ÍR ekki sérstaklega líklegt til að jafna eftir það, þrátt fyrir nokkur álitleg áhlaup í seinni hálfleik. Stjarnan er einfaldlega of sterk til að láta slíkt forskot af hendi.

Fjallað er um leiki gærkvöldsins í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert