Grískt stórveldi fellt fyrir að neita að spila

Leikmenn Olympiacos fá ekki að spila í grísku úrvalsdeildinni næsta …
Leikmenn Olympiacos fá ekki að spila í grísku úrvalsdeildinni næsta vetur.

Gríska úrvalsdeildin í körfubolta hefur ákveðið að senda lið Olympiacos niður um deild vegna mótmælaaðgerða félagsins en forráðamenn Olympiacos neita að láta lið sitt spila við Panathinaikos nema erlendir dómarar dæmi.

Olympiacos átti að mæta Panathinaikos í 8-liða úrslitum deildarinnar en neitaði að taka þátt í þeim. Ákvörðunin um að fella liðið var tekin af þeim sökum. Áður hafði Olympiacos neitað að spila við Panathinaikos í lok deildakeppninnar og voru dregin af liðinu átta stig vegna þess.

Forsaga málsins er sú að þegar liðin mættust í undanúrslitum grísku bikarkeppninnar þá hættu leikmenn Olympiacos eftir fyrri hálfleik, til þess að mótmæla dómgæslunni í leiknum. Panathinaikos var því úrskurðaður 20:0-sigur. Í kjölfarið sendi Olympiacos út yfirlýsingu þess efnis að liðið myndi ekki spila aftur við Panathinaikos nema erlendir dómarar yrðu fengnir til þess að dæma. Félagið tók einnig fram að Dimitris Giannakopoulos, eigandi Panathinaikos, væri bannaður á heimavelli Olympiacos.

Olympiacos er sannkallað stórveldi sem orðið hefur grískur meistari 12 sinnum, grískur bikarmeistari níu sinnum og unnuð EuroLeague þrisvar, en liðið er eitt af sextán liðum í þeirri keppni sem er sú sterkasta í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert