Eðlilegur munur í kringum fimmtán stig

Jón Eðvald Halldórsson, þjálfari Keflavíkur, hvetur sínar stúlkur áfram í …
Jón Eðvald Halldórsson, þjálfari Keflavíkur, hvetur sínar stúlkur áfram í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er pínu óánægður með það að við spiluðum ekki betur en við gerðum en svona getur körfuboltinn verið,“ sagði Jón Eðvald Halldórsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 82:51-tap liðsins gegn Val í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Dominos-deildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

„Stundum lendir maður í því að fá ekki það sem maður hafði vonast eftir frá liðinu sínu og og þetta var einn af þeim dögum. Að sama skapi voru jákvæðir punktar í þessu líka, Katla spilaði til dæmis mjög vel en hún hefur ekki náð að sýna sínar bestu hliðar í fyrstu leikjunum. Eydís átti flotta innkomu af bekknum og Írena var að dugleg að reyna að búa eitthvað til.“

Daniela Wallen náði sér engan veginn á strik í kvöld og skoraði einungis 8 stig fyrir Keflavík, en þau stig komu öll í síðari hálfleik.

„Við fengum lítið framlag frá erlenda leikmanninum okkar og við erum á þannig stað að við þurfum að fá í kringum 25 stig frá henni í hverjum einasta leik. Ef hún hefði skorað sín stig í dag hefði munurinn á liðunum eflaust verið í kringum 15 til 20 stig sem ég tel eðlilegan mun á þessum liðum eins og staðan er núna.“

Þrátt fyrir stórt tap er þjálfarinn nokkuð slakur yfir gangi mála.

„Við héldum Helenu algjörlega niðri, þótt hún vissulega geri aldrei meira en hún þarf, en við gerðum vel í að halda henni niðri og ég held alveg örugglega að einu stigin hennar í leiknum hafi komið af vítalínunni. Þetta sýnir okkur að við getum varist en við þurfum að skora líka, út á það gengur leikurinn, en að sama skapi er ég með ungt og efnilegt lið og ég er slakur yfir þessu,“ sagði Jón Eðvald í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert