Ástríðan færst yfir í þjálfun

Danielle Rodriguez hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár.
Danielle Rodriguez hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleikskonan Danielle Rodriguez hefur mögulega spilað sinn síðasta leik á ferlinum en hún hefur leikið hér á landi frá árinu 2016 þegar hún gekk til liðs við Stjörnuna í Garðabæ og lék þar í þrjú ár.

Rodriguez, sem er 26 ára gömul, gekk til liðs við KR síðasta sumar en hún hefur verið einn besti leikmaður Íslandsmótsins undanfarin ár.

Hún skoraði 20 stig að meðaltali í vetur en KR fór alla leið í úrslit bikarkeppninnar þar sem liðið tapaði gegn Skallagrími, ásamt því að vera í öðru sæti úrvalsdeildarinnar þegar tímabilið var blásið af vegna kórónuveirunnar.

„Ég tók þá ákvörðun á dögunum að ég ætla mér ekki að spila á næstu leiktíð,“ sagði Rodriguez í samtali við Morgunblaðið. „Ég ætla að einbeita mér að þjálfun því það er nokkuð sem ég hef mikinn áhuga á að leggja fyrir mig.

Planið var að fara til Bandaríkjanna og þjálfa í háskólaboltanum þar en vegna kórónuveirufaraldursins datt það hálfpartinn upp fyrir. Ég ákvað þess vegna að vera áfram á Íslandi og þjálfa af fullum krafti, í það minnsta fram að áramótum, og svo var planið að taka stöðuna aftur í Bandaríkjunum eftir það.“

Þurfti á breytingu að halda

Rodriguez tók að sér þjálfun yngri flokka hjá Stjörnunni í vetur og þá hefur hún verið aðstoðarþjálfari íslenska U18 ára stúlknalandsliðsins frá árinu 2018.

„Mér fannst ég þurfa á smá breytingu að halda og ég hef vitað það ansi lengi að ég vil þjálfa á einhverjum tímapunkti á mínum ferli. Þú getur ekki spilað að eilífu, sérstaklega ekki í kvennakörfunni, þar sem ferillinn er mun styttri en í karlakörfunni. Ég hef vaxið jafnt og þétt inn í þjálfarastarfið og ég hef fundið að ástríða mín fyrir því að spila körfubolta hefur aðeins færst yfir í það að þjálfa körfubolta.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert