Trúir því að Jón Arnór stígi síðasta dansinn

Jón Arnór Stefánsson kominn framhjá Kevin Capers í úrslitarimmunni gegn …
Jón Arnór Stefánsson kominn framhjá Kevin Capers í úrslitarimmunni gegn ÍR sumarið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, hefur greinilega ekki gefið upp alla von að reynsluboltarnir muni spila með KR eitt tímabil í viðbót. 

Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon og Jakob Örn Sigurðarson eru 38 ára á árinu og Sigurður Þorvaldsson fertugur. Jón hefur gefið sterklega í kyn að hann sé hættur en ekki gefið út endanlega ákvörðun. 

„Jón Arnór sagðist reikna með því að vera hættur. Ætli menn vilji ekki klára hinsta dansinn á eðlilegan hátt í úrslitakeppni en ekki þegar mótið er flautað af eftir leik á Hlíðarenda. Ætli þessir menn vilji ekki enda ferilinn á þeim nótum þar sem Íslandsmótið er spilað til enda. Helgi er einnig að hugsa málið en hvenær þær taka ákvörðun veit ég ekki. Væntanlega verður það þegar líður á sumarið,“ sagði Böðvar þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

Leikmenn KR eru samningsbundnir. „Já þeir eru samningsbundnir og kjarni liðsins verður hérna áfram.“

Böðvar segir að með ráðningu Darra og Garcia sem þjálfara sé ný kynslóð að taka við. „Ég er mjög glaður yfir því að búið sé að koma því í loftið að hér sé komið nýtt þjálfarateymi hjá KR. Það er gott að vera búinn að þessu. Þá getum við horft fram á við og skipulagt okkur fyrir næsta vetur. Með Darra kemur ný kynslóð í þjálfarateymið og Brynjar er þannig séð kornungur líka og verður yfirþjálfari. Garcia er aðeins eldri og hokinn af reynslu. Ég er mjög spenntur fyrir því að fá hann inn í félagið.“

Spurður um ástæður þess að stjórn körfuknattleiksdeildar KR sagði Inga Þór Steinþórssyni upp störfum á dögunum sagðist Böðvar ekki ætla að ræða ástæður þess opinberlega. „Það voru bara ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að fara neitt út í. Það er prívatmál eða innanhússmál. Þetta varð niðurstaðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert