„Vildi taka við meistaraflokksliði“

Garcia og Darri á blaðamannafundinum í dag.
Garcia og Darri á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýr þjálfari kvennaliðs KR í körfuknattleik, Francisco Garcia, býr að mikilli reynslu sem þjálfari og kemur frá Spáni sem er sterk körfuboltaþjóð. 

Garcia kom til Íslands síðasta vetur og var yfirþjálfari hjá Skallagrími. Hann tjáði mbl.is í dag að hann hafi nú hug á að fara aftur í meistaraflokksþjálfun. 

„Þetta er ný áskorun fyrir mig. Ég hef reyndar verið á Íslandi í hálft ár en síðustu tvo mánuðina eða svo hefur blundað í mér að snúa mér aftur að meistaraflokksþjálfun. Formaðurinn (Böðvar Guðjónsson) hringdi í mig í síðustu viku og við náðum samkomulagi.“

KR hefur á síðustu vikum þurft að horfa á eftir landsliðskonunni Hildi Björgu Kjartansdóttur sem fór í Val og Daniellu Rodriguez sem segist ætla að einbeita sér að þjálfun hjá Stjörnunni. Eru aðrir leikmenn samningsbundnir? 

„Já formaðurinn tjáði mér að leikmennirnir séu samningsbundnir. Við erum að mínu mati með hóp af góðum leikmönnum. Hildur er auðvitað farin og við eigum að ná í erlenda leikmenn áður en við setjum saman sterkt og samkeppnishæft lið,“ sagði Garcia í samtali við mbl.is í Frostaskjólinu í dag. 

Á heimasíðu KR er að finna þetta yfirlit um feril Garcia: „Hann hefur þjálfað í efstu deild kvenna á Spáni, var aðstoðarþjálfari U18 landsliðs kvenna á Spáni, landsliðsþjálfari U14 kvenna á Spáni, landsliðsþjálfari kvenna á Indlandi þar sem hann m.a. náði besta árangri liðsins í Asíu keppninni. Einnig hefur hann þjálfað í efstu deildum í Danmörku og Finnlandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert