Álftanes og Hamar með fullt hús

Róbert Sigurðsson var sterkur hjá Álftnesingum.
Róbert Sigurðsson var sterkur hjá Álftnesingum. mbl.is/Árni Sæberg

Álftanes og Hamar eru með fullt hús stiga í 1. deild karla í körfubolta eftir góða sigra í kvöld. Álftanes hafði betur gegn Breiðabliki á útivelli, 96:87 og Hamar vann Skallagrím á útivelli, 93:87.

Cedreck Bowen skoraði 26 stig fyrir Álftanes og Róbert Sigurðsson bætti við 21 stigi. Árni Elmar Hrafnsson skoraði 21 stig fyrir Breiðablik en leikurinn var sá fyrsti hjá Breiðabliki á leiktíðinni.

Hamar, sem var hársbreidd frá því að fara upp um deild á síðustu leiktíð, tryggði sér sigurinn í Borgarnesi með góðum fjórða leikhluta. José Aldana átti góðan leik fyrir Hamar og skoraði 29 stig og gaf 15 stoðsendingar. Ruud Lutterman skoraði 24 stig. Mustafa Traore var stigahæstur hjá Skallagrími með 21 stig og hann tók 11 fráköst sömuleiðis.

Sindri vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu er Hrunamenn komu í heimsókn á Höfn. Gerald Robinson, sem hefur leikið í úrvalsdeildinni með ÍR og Haukum síðustu ár, skoraði 30 stig fyrir Sindra. Corey Taite skoraði 35 stig fyrir Hrunamenn.

Þá vann Vestri 82:75-heimasigur á Selfossi. Ken-Jah Bosley skoraði 31 stig fyrir Vestra og Nemanja Knezevic skoraði 21 og tók 17 fráköst. Sveinn Búi Birgisson og Gunnar Steinþórsson skoruðu 16 stig hvor fyrir Selfoss.  

mbl.is