Hætt eftir að henni var sagt að halda kjafti

Ariana Moorer í leik með Fjölni gegn Haukum 13. janúar …
Ariana Moorer í leik með Fjölni gegn Haukum 13. janúar síðastliðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ariana Moorer hefur yfirgefið körfuknattleikslið Fjölnis í úrvalsdeild kvenna, Dominos-deildinni, eftir að hún lenti upp á kant við þjálfara liðsins, Halldór Karl Þórsson.

Þetta staðfestu þau bæði í samtali við Karfan.is en Moorer skoraði 13 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar að meðaltali í fyrstu þremur leikjum sínum fyrir Fjölni á tímabilinu.

„Það var langur aðdragandi að þessu og andrúmsloftið var búið að vera ansi þungt,“ sagði Halldór í samtali við Karfan.is.

„Hápunkturinn á þessu veseni varð svo í síðasta leik hennar með okkur gegn Haukum þar sem leikplanið var ekki að ganga upp.

Það kom upp ákveðið móment, eftir að öll virðing fyrir bæði leiknum og dómurum var farin. Hún fór að tala um að liðsfélagarnir væru orðnir latir og ég ætlaði að reyna að ræða við hana.

Hún gaf mér ekki kost á því og þá sagði ég „shut the fuck up“ eða haltu kjafti við hana. Auðvitað segi ég það ekki í daglegum samskiptum við fólk en í hita leiksins gerði ég það.

Hún brást mjög illa við, fór héðan út og skildi liðið sitt eftir. Hún vildi svo ekki ræða þetta neitt frekar og þá var í raun ekki hægt að halda áfram,“ bætti Halldór við.

Ariana Moorer ræddi einnig við Karfan.is um atvikið en viðtalið við hana má nálgast hér.

mbl.is