Er að gera það sem er best fyrir mig

Kyrie Irving.
Kyrie Irving. AFP

Kyrie Irving, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik, segist einfaldlega vera að gera það sem henti honum best með því að hafna bólusetningu við kórónuveirunni. Þá sé það af og frá að hann sé að hætta körfuknattleiksiðkun.

Irving getur sem kunnugt er ekki spilað né æft í New York-borg, þar sem Brooklyn-liðið er staðsett, vegna reglna þar í borg sem kveða á um að óbólusettir einstaklingar megi ekki sækja fjölmenna viðburði af hverju tagi.

Þá hefur framkvæmdastjóri Brooklyn, Sean Marks, sagt að þó Irving mætti taka þátt í flestum útileikjum NBA-deildarinnar, hefði liðið engan áhuga á því að hafa leikmann í hlutastarfi.

Á Instagramaðgangi sínum í gærkvöldi tók Irving til máls í myndskeiði.

„Gerið það sem þið teljið best fyrir ykkur, en ég er ekki að taka afstöðu með eða gegn bólusetningu. Ég er bara að gera það sem er best fyrir mig.

Ég átta mig á afleiðingunum og ef þær þýða að ég verð dæmdur fyrir það þá verður bara að hafa það, það er hlutverkið sem ég þarf að leika,“ sagði hann.

Irving, sem er 29 ára gamall, sagði þetta ekki þýða að hann væri að hætta í körfubolta.

„Nei ég er ekki að hætta og nei, ég er ekki að fara yfirgefa íþróttina svona. Það er enn svo mikið verk að vinna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert