Fékk þriggja leikja bann

Bandaríkjakonan Sianni Martin, sem leikur með Snæfelli í 1. deild kvenna í körfuknattleik, hefur verið úrskurðuð í þriggja leikja bann vegna háttsemi sinnar í stórsigri Snæfells á Þór frá Akureyri fyrir tveimur vikum síðan.

Martin hefur farið á kostum í deildinni á tímabilinu þar sem hún er með 36,1 stig skorað að meðaltali, sem er hæsta meðaltal allra leikmanna deildarinnar.

Hún mun af þessum sökum missa af leikjum Snæfells gegn Stjörnunni, KR og Tindastóli, að því gefnu að engum þeirra verði frestað.

Snæfell er í fjórða sæti 1. deildar með 12 stig að loknum 11 leikjum.

mbl.is