Svefnvana en ánægður þjálfari

Finnur Freyr Stefánsson fagnar sigrinum í gær.
Finnur Freyr Stefánsson fagnar sigrinum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þjálfarinn sigursæli Finnur Freyr Stefánsson segist lítið sofa á milli úrslitaleikjanna á Íslandsmóti karla í körfuknattleik. 

Finnur stendur í stórræðum með lið Vals sem í gærkvöldi náði 2:1 forystu gegn Tindastóli en þrjá sigra þarf til að verða Íslandsmeistari. Nokkuð sem Finnur afrekaði fimm sinnum sem þjálfari KR.

„Staðan er bara 2:1 og það á eftir að spila mikinn körfubolta áður en þessu lýkur. En við erum alla vega búnir að koma okkur í þá stöðu að vera einum sigri frá titlinum. Við getum mögulega unnið titilinn í Síkinu á sunnudaginn og eigum þá heimaleik upp á að hlaupa ef það gengur ekki. En eins og alltaf þá förum við í næsta leik til að vinna,“ sagði Finnur en hann vildi ekki eigna sér heiðurinn af vasklegri framgöngu Valsmanna í síðari hálfleik þegar liðið vann upp nítján stiga mun. Hann segir leikmennina eiga heiðurinn að því.

„Þetta var sturlaður viðsnúningur. Það er ekki hægt að skýra þetta út frá leikfræðinni. Mínir men komu miklu ákveðnari út í síðari hálfleikinn, fundu þefinn af þessu og tókst að snúa þessu. Það er mikilvægt að ná þessum sigri og það er svo sem sama hvernig sigrarnir koma.“

Kristófer Acox skorar auðveldlega fyrir Val í upphafi leiks í …
Kristófer Acox skorar auðveldlega fyrir Val í upphafi leiks í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fannst Finni ekki sigurinn vera að ganga Valsmönnum úr greipum í upphafi síðari hálfleiks þegar Tindastóll var nítján stigum yfir? 

„Jú eins og fyrri hálfleikurinn þróaðist. Við áttum erfitt með að skora og þeir settu strax skot niður í byrjun síðari hálfleiks. Um miðbik þriðja leikhluta komu Hjálmar og Jacob (Calloway) inn á og vörnin nær að herðast. Allt í einu urðu leiðirnar að körfunni erfiðari fyrir þá og skotin urðu auðveldari fyrir okkur. Allt í einu fór einhver snjóbolti að rúlla. 

Fyrir síðasta leikhlutann munaði tólf stigum en þá setur Sigtryggur Arnar þrist fyrir þá snemma í síðasta leikhlutanum og munurinn fór upp í fimmtán stig. Það er erfitt að lýsa þessu en menn hættu kannski að hugsa of mikið. Við þjálfararnir flækjum leikinn stundum of mikið þegar við reynum að byggja upp mikla hluti. Menn settu bara undir sig hausinn og létu vaða bæði í vörn og sókn. Það skilaði okkur þessum sigri.“

Kvöl og pína

Úrslitarimman á milli Vals og Tindastóls er mjög skemmtileg fyrir okkur sem erum hlutlaus. Er ekki skemmtilegt að taka þátt í þessu? 

„Nei þetta er bara kvöl og pína fyrir okkur sem erum í þessu og sérstaklega fyrir okkur þjálfarana. En þetta er rosalega skemmtilegt fyrir ykkur hin. Á milli leikja veltir maður fyrir sér hvað maður á að gera vegna þess að kvíðinn er svo mikill og maður sefur ekki rassgat. En á stundum sem þessari er þetta allt þess virði,“ sagði Finnur Freyr hreinskilnislega þegar mbl.is spjallaði við hann á Hlíðarenda að leiknum loknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert