Mikilvægur fallslagur Reykjavíkurliðanna

Úr leik KR og ÍR á síðasta tímabili.
Úr leik KR og ÍR á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjórir leikir fara fram í Subway-deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar 8. umferðin hefst.

KR fær ÍR í heimsókn í fallslag þar sem KR er í 11. og næstneðsta sæti, fallsæti, með aðeins 2 stig og ÍR er sæti ofar með 4 stig.

Sigur er því báðum liðum afar mikilvægur í kvöld.

Botnlið Þórs frá Þorlákshöfn fær Njarðvík í heimsókn og freistar þess að vinna sinn annan heimaleik í röð, en fyrsti og eini sigur tímabilsins hjá Þórsurum kom í þarsíðustu umferð gegn öðru Suðurnesjaliði, Keflavík.

Njarðvík getur hins vegar með sigri jafnað liðin í öðru og þriðja sæti, Breiðablik og Keflavík, að stigum.

Nýliðar Hattar fá Grindavík í heimsókn í athyglisverðum slag á Egilsstöðum, en liðin eru í áttunda og níunda sæti, bæði með 6 stig.

Loks taka nýliðar Hauka á móti Tindastóli í Ólafssal að Ásvöllum. Liðin eru í fjórða og fimmta sæti, bæði með 8 stig, og geta því með sigri komið sér í grennd við toppinn.

Leikir kvöldsins:

KR - ÍR kl. 18.15

Þór Þorlákshöfn - Njarðvík kl. 19.15

Höttur - Grindavík kl. 19.15

Haukar - Tindastóll kl. 20.15

mbl.is