Níundi sigur Denver í röð

Jamal Murray var með þrefalda tvennu í góðum sigri Denver …
Jamal Murray var með þrefalda tvennu í góðum sigri Denver á Indiana í nótt. AFP/Matthew Stockman

Níu leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Denver Nuggets vann sinn níunda sigur í röð þegar liðið lagði Indiana Pacers á heimavelli sínum, 134:111.

Denver var án síns langbesta leikmanns Nikola Jokic sem glímir við meiðsli aftan í læri en það kom ekki að sök. Aaron Gordon var atkvæðamestur með 28 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst og Michael Porter Jr. skoraði 19 stig og tók 8 fráköst. Jamal Murray skilaði þá þrefaldri tvennu með 17 stig, 14 stoðsendingar og 10 fráköst.

Bennedict Mathurin skoraði 19 stig fyrir Indiana og Chris Duarte skoraði 18 stig. Denver er enn á toppi Vestur-deildarinnar með 33 sigra í 46 leikjum en Indiana er í 9. sæti Austur-deildarinnar með 23 sigra í 47 leikjum.

Dallas Mavericks vann góðan heimasigur á Miami Heat, 115:90, þar sem Luka Doncic fór fyrir sínum mönnum að venju. Doncic skoraði 34 stig, tók 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Victor Oladipo skoraði 20 stig fyrir Miami og Bam Adebayo skoraði 18 stig, tók 11 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Dallas er í 5. sæti Vestur-deildarinnar með 25 sigra að loknum 47 leikjum en Miami í því 6. í Austur-deildinni með sama sigurhlutfall.

Öll úr­slit næt­ur­inn­ar:

Orlando - New Orleans 123:110
Atlanta – New York 139:124
Cleveland – Golden State 114:120
Dallas – Miami 115:90
San Antonio – LA Clippers 126:131
Denver – Indiana 134:111
Utah – Brooklyn 106:117
LA Lakers – Memphis 122:121
Sacramento – Oklahoma 118:113

mbl.is