Snýr aftur til Njarðvíkur

Chaz Williams í leik með Njarðvík árið 2020.
Chaz Williams í leik með Njarðvík árið 2020. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur gengið frá samningi við Bandaríkjamanninn Chaz Williams og mun hann leika með liðinu á næstu leiktíð. Williams lék með Njarðvík tímabilið 2019/20.

Williams kom til Njarðvíkur eftir að tímabilið var komið af stað og batnaði gengi liðsins töluvert með komu hans. Ekki tókst hins vegar að klára leiktíðina vegna kórónuveirunnar. Williams hefur einnig leikið með Þór frá Þorlákshöfn hér á landi. 

„Ég var alltaf mjög hrifinn af Chaz á sínum tíma og þegar við bárum undir hann að koma aftur þá kom í ljós að hann var heldur betur til í það að koma aftur í Njarðvík, enda leið honum mjög vel hérna.

Hann þekkir landið, bæjarfélagið, deildina og félagið. Hann er reynslumikill leikmaður með stórt hjarta og mun leiða nýtt lið Njarðvíkur á næsta tímabili,“ er haft eftir þjálfaranum Benedikt Guðmundssyni á heimasíðu Njarðvíkur.

mbl.is