Virkilega skemmtilegt að spila saman

Thelma Ágústsdóttir, númer 10, fagnar ásamt liðskonum.
Thelma Ágústsdóttir, númer 10, fagnar ásamt liðskonum. mbl.is/Skúli B. Sig

Thelma Ágústsdóttir, leikmaður kvennaliðs Keflavíkur, var að vonum ánægð með árangurinn í vetur en lið hennar vann alla titla í sem í boði voru. Við ræddum við Thelmu eftir verðlaunaafhendingu í kvöld.

Hverju þakkar þú árangurinn í vetur?

„Klárlega liðsheildinni myndi ég segja. Þetta eru allt stelpur sem eru búnar að alast upp við að spila saman og við þekkjum hvor aðra ótrúlega vel. Þá er virkilega skemmtilegt að spila saman og mér fannst við gera það bara mjög vel. Við náðum að hlaupa á þær og fá stopp, sérstaklega í þessari seríu og þetta var bara geggjað."

Þið vinnið þessa seríu 3:0. Fyrirfram hefði kannski mátt gera ráð fyrir erfiðari seríu í ljósi þess að þið þurftuð 5 leiki til að vinna Stjörnuna?

„Mér fannst þessi sería bara öðruvísi. Stjörnustelpurnar eru svo ungar og spila á fullu allan leikinn á meðan Njarðvík vill frekar hægja á leiknum og við náðum að keyra í bakið á þeim og mér fannst það heppnast vel hjá okkur."

Ertu sammála því að þessi sería hafi svolítið unnist í fyrsta leik þar sem þið náið að vinna eftir tvíframlengdan leik og liðið sem tapar þannig leik er svolítið brotið?

„Já ég er sammála því. Erfitt að koma inn í næsta leik eftir þannig tap, sérstaklega þegar það er stutt á milli leikja. Já mér fannst við bara flottar að klár þetta."

Nú er tímabilið búið og þið vinnið allt sem hægt var að vinna. Unnuð nánast alla leiki sem þið kepptuð. Hvernig verður næsta tímabil, verður Thelma áfram í Keflavík?

„Það er enginn farin að hugsa svo langt og það á bara allt eftir að koma í ljós. Núna erum við loksins komnar í sumarfrí og tímabilið búið að vera langt og við ætlum bara aðeins að njóta þess að hafa náð þessum árangri og svo förum við að pæla í næsta tímabili," sagði Thelma í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka