Ætlar að halda UFC-kvöld á einkaeyju

Dana White er forseti UFC.
Dana White er forseti UFC. AFP

Dana White, forseti UFC-bardagasamtakanna, deyr ekki ráðalaus þrátt fyrir erfiðleika sambandsins vegna kórónuveirunnar. Samtökin hafa þegar þurft að fresta nokkrum keppniskvöldum vegna veirunnar, en núna er White kominn með ráð við því. 

White sagðist í samtali við TMZ hafa fundið einkaeyju þar sem næstu bardagakvöld samtakanna myndu fara fram. Hann gaf ekki út hvar eyjan væri eða í hvaða heimsálfu en bætti við að nánari fréttir væru væntanlegar. 

Næsta kvöld á að fara fram 18. apríl næstkomandi þar sem Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson áttu að mætast. Nurmagomedov hætti hins vegar við bardagann þar sem hann komst ekki til Bandaríkjanna og mætir Ferguson því Justin Gaethje í staðinn. 

Kvöldið er enn á dagskrá en fáir aðrir en Dana White vita nákvæmlega hvar það fer fram, fari það yfir höfuð fram. White lofaði að heilsa keppenda og annarra sem koma að kvöldunum væri í fyrirrúmi.

mbl.is