Holland skoraði tíu – Ástralía vann grannaslaginn

Vivianne Miedema skorar fjórða mark sitt í leiknum í dag.
Vivianne Miedema skorar fjórða mark sitt í leiknum í dag. AFP

Kvennalandslið Hollands í knattspyrnu gjörsigraði lið Sambíu í F-riðlinum á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag. Enduðu leikar 10:3 í ótrúlegum leik. Ástralía vann þá góðan sigur á Nýja-Sjálandi auk þess sem Japan og Kanada skildu jöfn í hörkuleik.

Staðan í hálfleik í leik Hollands og Sambíu var 6:1 þar sem Vivianne Miedema, einn besti framherji heims, var þegar búin að skora þrennu.

Hún bætti við einu marki til viðbótar í síðari hálfleiknum og fullkomnaði þar með fernuna. Lieke Martens skoraði tvö mörk og Shanice van de Sanden, Jill Roord, Lineth Beerensteyn og Victoria Pelova komust allar á blað.

Barbra Banda, vængmaður Sambíu, gerði sér lítið fyrir og skoraði öll þrjú mörk liðsins í leiknum.

Það gerist ekki oft að Ástralía eða Nýja-Sjáland taki þátt í grannaslag í lokakeppni en það gerðist í G-riðlinum í dag þegar Eyjaálfuliðin öttu kappi.

Ástralía hafði betur, 2:1, þar sem bæði mörk Ástrala komu í fyrri hálfleik. Þau skoruðu Tameka Yallop og markahrókurinn mikli, Sam Kerr.

Nýsjálendingar klóruðu í bakkann í uppbótartíma venjulegs leiktíma þegar Gabriele Rennie skoraði en það var um seinan og Ástralir hrósuðu sigri.

Betsy Hassett, leikmaður Stjörnunnar hér á landi, lék allan leikinn í liði Nýja-Sjálands og þá var Olivia Chance, sem lék með Breiðabliki sumarið 2016, í byrjunarliði og var tekin af velli á 68. mínútu.

Betsy Hassett, leikmaður Stjörnunnar, með boltann í leik Nýja-Sjálands og …
Betsy Hassett, leikmaður Stjörnunnar, með boltann í leik Nýja-Sjálands og Ástralíu. AFP

Í liði Ástralíu lék reynsluboltinn Aivi Luik allan leikinn, en hún lék með Fylki sumarið 2015.

Í E-riðlinum gerðu Japan og Kanada 1:1-jafntefli.

Christine Sinclair, leikjahæsta landsliðskona allra tíma, kom Kanada yfir snemma leiks.

Allt stefndi í nauman sigur Kanadakvenna en Mana Iwabuchi jafnaði metin skömmu fyrir leikslok og liðin sættust því á jafnan hlut.

Hin gífurlega leikreynda Christine Sinclair (nr. 12) fagnar marki sínu …
Hin gífurlega leikreynda Christine Sinclair (nr. 12) fagnar marki sínu ásamt liðsfélögum í dag. AFP
mbl.is