Gullið til Eþíópíu eftir hnífjafnan endasprett

Selemon Barega kemur í mark örskammt á undan Úgandamönnunum tveimur …
Selemon Barega kemur í mark örskammt á undan Úgandamönnunum tveimur eftir magnaðan endasprett í 10.000 metra hlaupinu í dag. AFP

Selemon Barega frá Eþíópíu fékk fyrstu gullverðlaun frjálsíþróttakeppninnar á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag þegar hann sigraði í 10.000 metra hlaupi karla eftir æsilegan endasprett.

Barega hljóp á 27:43,22 mínútum og var aðeins 0,41 sekúndu á undan Joshua Cheptegei frá Úganda sem hlaut silfrið. Jacob Kiplimo frá Úganda var alveg á hælum þeirra og hlaut bronsið á 27:43,88 mínútum þannig að aðeins um það bil hálf sekúnda skildi að verðlaunahafana þrjá eftir 25 hringi og 10 kílómetra á ólympíuleikvanginum.

Barega er aðeins 21 árs gamall en hefur verið í fremstu röð í sínum aldursflokkum og fengið gullverðlaun á heimsmeistaramótum unglinga, bæði í flokkum U18 og U20 ára, og þá fékk hann silfur á heimsmeistaramóti fullorðinna í Katar fyrir tveimur árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert