Heimamenn í undanúrslit eftir sigur í vítakeppni

Matthew Garbett og Wataru Endo eigast við í leiknum í …
Matthew Garbett og Wataru Endo eigast við í leiknum í morgun. AFP

Heimamenn í Japan eru búnir að tryggja sér sæti í undanúrslitunum í knattspyrnu karla á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir 4:2 sigur á Nýja-Sjálandi í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitunum í morgun.

Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og sömuleiðis var ekkert skorað í framlengingunni. Því var gripið til vítakeppni.

Þar var aldrei spurning hverjir myndu sigra. Japanir skoruðu af miklu öryggi úr öllum fjórum spyrnum sínum á meðan tvær spyrnur Nýsjálendinga fóru forgörðum.

Kosei Tani í marki Japana varði aðra spyrnu Nýsjálendinga, sem Liberato Cacace tók, þægilega og Michael Boxall þrumaði þriðju spyrnu þeirra yfir markið. Chris Wood og Callum McCowatt skoruðu úr sínum spyrnum.

Ayase Ueda, Ko Itakura, Yuta Nakayama og Maya Yoshida skoruðu úr spyrnum Japana.

Japan er þar með komið áfram í undanúrslitin, þar sem Spánverjar bíða þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert