Thelma hefur lokið keppni

Thelma Björg Björnsdóttir á fleygiferð í 400 m skriðsundinu í …
Thelma Björg Björnsdóttir á fleygiferð í 400 m skriðsundinu í dag. Ljósmynd/ÍF

Thelma Björg Björnsdóttir lauk keppni á Ólympíumóti fatlaðra rétt í þessu, á föstudagsmorgni í Tókýó, þegar hún keppti í seinni grein sinni á mótinu, 400 metra skriðsundi í flokki S6, hreyfihamlaðra.

Thelma synti í seinni riðlinum af tveimur á 6:31,67 mínútum og hafnaði þar í sjöunda sæti af sjö keppendum og í þrettánda sæti af þrettán keppendum í heild í greininni. Hún var skráð til leiks á tímanum 6:10,91 mínútur og var því nokkuð frá sínu besta að þessu sinni.

Thelma keppti áður í 100 metra bringusundi, sinni aðalgrein, þar sem hún komst í úrslitin og endaði í áttunda sæti.

Heimsmethafinn Nora Meister frá Sviss sigraði í riðli Thelmu á 5:23,91 mínútum. Jiang Yuyan frá Kína setti hinsvegar Paralympics-met í fyrri riðlinum þegar hún synti á 5:14,52 mínútum. Þessar tvær berjast væntanlega um gullverðlaunin í úrslitasundinu síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert