Tveir með fullkominn leik

Arnar Davíð Jónsson var fyrstur til að spila fullkominn leik …
Arnar Davíð Jónsson var fyrstur til að spila fullkominn leik í keilukeppni Reykjavíkurleikanna 2019. Ljósmynd/ÍR

Keilukeppni Reykjavíkurleikanna fer fram í Egilshöll næstu daga. Spiluð verður forkeppni í fimm riðlum fram á laugardag en á sunnudag verður keppt til úrslita með útsláttarfyrirkomulagi. 34 erlendir keppendur frá sex löndum taka þátt í mótinu, meðal annars þrjár atvinnukonur í keilu og sigurvegarinn frá því í fyrra, Jesper Agerbo frá Danmörku.

Í dag voru spilaðir fyrstu tveir riðlar mótsins og er Mattias Möller frá Svíþjóð efstur eftir daginn, Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR í öðru sæti og Jesper Agerbo frá Danmörku í þriðja sæti.

Tveir keppendur náðu að spila fullkominn leik í dag eða 300 pinna. Arnar Davíð Jónsson sem spilar með Höganas Svíþjóð setti í einn 300 leik strax í öðrum leik dagsins. Hann var svo í harðri keppni í 6. og síðasta leik riðilsins við félaga sinn Svíann Mattias Möller en þeir felldu báðir inn í 10. ramma. Arnari mistókst að ná öðrum 300 leik dagsins en lék engu að síður 297 á meðan Möller náði að klára og tók þar með annan 300 leik dagsins.

Úrslit og nánari upplýsingar um keilukeppni Reykjavíkurleikanna má finna hér.

Arnar Davíð Jónsson var fyrstur til að spila fullkominn leik …
Arnar Davíð Jónsson var fyrstur til að spila fullkominn leik í keilu á Reykjavíkurleikunum 2019. Ljósmynd/ÍR
mbl.is