Þrefaldur sigur Guðbjargar í Höllinni

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir eftir sigurinn í 60 metra hlaupinu í …
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir eftir sigurinn í 60 metra hlaupinu í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hin 18 ára gamla Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir úr ÍR vann þrefaldan sigur á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í Laugardalshöllinni í dag þegar hún vann bæði 60 og 200 metra hlaup kvenna eftir harðan slag við erlenda andstæðinga.

Guðbjörg vann fyrst 200 metra hlaupið á nýju mótsmeti, 23,98 sekúndur, sem er jafnframt hennar besti tími í greininni innanhúss. Aaliyah Pyatt frá Bandaríkjunum varð önnur á 24,42 sekúndum og Tamara Miller frá Bretlandi þriðja á 24,90 sekúndum.

Guðbjörg vann síðan 60 metra hlaupið á 7,48 sekúndum þar sem hún var 1/100 úr sekúndu frá því að jafna Íslandsmetið innanhúss sem hún og Tiana Ósk Whitworth deila. Louise Östergård frá Danmörku varð önnur á 7,51 sekúndu og Page Fairclough frá Bretlandi varð þriðja á 7,61 sekúndu en þær eru sex og sjö árum eldri en Guðbjörg.

Guðbjörg var loks í sveit Íslands sem vann 4x200 metra boðhlaup kvenna, lokagrein mótsins, á 1:37,94 mínútum en sveit Bandaríkjanna hljóp á 1:38,09 mínútum. Með Guðbjörgu í sveitinni voru Andrea Torfadóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir og Agnes Kristjánsdóttir.

Hlynur Andrésson úr ÍR vann 1.500 m hlaup karla á 3:46,30 mínútum. Kieran Reilly frá Bretlandi varð annar á 3:49,45 og Cole Sprout frá Bandaríkjunum þriðji á 3:54,23 mínútum.

Hafdís Sigurðardóttir úr UFA vann langstökk kvenna, stökk 6,37 metra, tíu sentimetrum lengra en Kaiza Karlen frá Svíþjóð.

Guðni Valur Guðnason, kringlukastari úr ÍR, vann kúluvarpið, kastaði 18,43 metra sem er hans besti árangur. John Kelly frá Írlandi kastaði 18,15 metra.

Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni vann kúluvarp kvenna og kastaði 15,57 metra, en Hannah Molyneaux frá Bretlandi varð önnur með 13,05 metra kast.

Sæmundur Ólafsson úr ÍR vann 800 m hlaup karla á 1:56,09 mínútum.

Louise Ekman frá Svíþjóð vann hástökk kvenna, stökk 1,78 metra.

Andreas Carlsson frá Svíþjóð vann langstökk karla, stökk 7,55 metra.

Jason Hoyle frá Bretlandi vann 400 m hlaup karla á 48,02 sekúndum.

James Williams frá Bretlandi vann 60 m hlaup karla á 6,78 sekúndum.

Victoria Bossong frá Bandaríkjunum vann 400 m hlaup kvenna á 54,96 sekúndum.

Revee Walcott-Nolan frá Bretlandi vann 800 m hlaup kvenna á 2:09,81 mínútu.

Dominic Ogbechie sigraði í hástökki karla, stökk 2,17 metra.

Sveit Bandaríkjanna sigraði í 4x200 m boðhlaupi karla á 1:27,13 mínútum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert