Allir þeir bestu taka þátt

Frá júdókeppni Reykjavíkurleikanna árið 2020.
Frá júdókeppni Reykjavíkurleikanna árið 2020.

Allt besta júdófólk Íslands verður með á Reykjavíkurleikunum í ár. Engir erlendir keppendur verða með þetta árið sökum kórónuveirunnar. 

Búist er við spennandi keppni í nokkrum flokkum. Sveinbjörn Jun Iura er sterkasti íslenski keppandinn og hefur verið valinn Júdómaður ársins síðustu 4 ár af JSÍ. Jafnframt er Sveinbjörn efstur á styrkleikalista IJF, er í 70. sæti og stefnir ótrauður á Ólympíuleikana og leggur allt í sölurnar til að komast inn. Sveinbjörn keppir fyrir Ármann í -81 kg flokknum en búist er við spennandi keppni milli hans og Árna Péturs Lund frá JR. Einnig verður spennandi að fylgjast með -90 kg flokknum þar sem Egill Blöndal frá Selfossi þykir líklegastur til sigurs. 

„Þetta er fyrsta innanlandsmótið mitt í langan tíma og það er alltaf jafn mikill spenningur að keppa á Reykjavíkurleikunum. Ég er spenntur að keppa aftur eftir langa pásu og er til í að koma árinu í gang með þessu móti, því það er mikið fram undan,” segir Sveinbjörn Jun Iura. Á næstunni eru nokkur mót hjá Sveinbirni, mót í Ísrael í febrúar, Evrópumót í mars og svo heimsmeistaramótið í júlí. 

Mótið verður haldið í í Laugardalshöll, þar sem engir áhorfendur verða leyfðir verður mótinu streymt á Facebook, en einnig verður bein útsending frá úrslitum á RÚV á laugardaginn 30. janúar.

mbl.is