Sund og badminton á RIG í dag

Frá badmintonkeppni RIG í TBR húsinu.
Frá badmintonkeppni RIG í TBR húsinu. mynd/BSÍ

Tvær greinar verða í gangi á Reykjavíkurleikunum í dag. Badminton heldur áfram í TBR-húsinu og sundið hefst seinnipartinn í Laugardalslaug. 

Badminton-keppnin heldur áfram

Íslendingum gekk vel í gær á RSL International Iceland. Sólrún Anna Ingvarsdóttir vann alla sína leiki í einliðaleik kvenna og kemst því áfram í 32 manna úrslit, en hún er eini Íslendingurinn sem kemst áfram í einliðaleik.

Sólrún Anna spilar gegn Elena-Alexandra Diordiev frá Moldóvu og hefst leikurinn klukkan 13.05 í TBR. Íslendingar spila fjóra tvenndarleiki, fimm tvíliðaleiki kvenna og sex tvíliðaleiki karla í dag og hægt er að horfa á streymi af badmintonkeppni RIG á RIG.IS/LIVE. Einnig er hægt að fylgjast með úrslitunum hér.

Sundkeppnin RIG hefst í dag

Sundfólkið stingur sér til leiks klukkan 16.30 í Laugardalslaug. Birnir Freyr Hálfdánarson, SH, á góða möguleika að komast á pall í 400 m fjórsundi eftir að hafa nýlega orðið Norðurlandameistari. Búast má við spennandi keppni í 800 m skriðsundi kvenna, tvær sterkar erlendar stinga sér þar til sunds sem og Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB, Katja Lilja Andriysdóttir úr SH og Sólveig Freyja Hákonardóttir úr Breiðabliki, en einungis 4 sekúndur skilja stelpurnar að.

Hægt er að sjá dagskrá og úrslit hér, þá er hægt að horfa á allt sundmótið á streymi á RIG.IS/LIVE.

Veðrið hefur áhrif á komu íþróttafólks á RIG

Íþróttafólk hefur verið að koma til landsins síðustu daga, en von var á mörgum íþróttamönnum í dag. Icelandair hefur aflýst mörgum flugum til landsins sem hefur nokkur áhrif á mótshlutana þar sem einhverjir keppendur komast ekki til landsins.

mbl.is