Alcoa skoðar möguleika á að reisa álver á Grænlandi

Frá Grænlandi.
Frá Grænlandi. mbl.is/RAX

Bandaríska álfélagið Alcoa, sem rekur álverið í Reyðarfirði, og grænlenska heimastjórnin skrifuðu í dag undir samkomulag um að gerð verði könnun á hagkvæmni þess að reisa álver á Grænlandi þar sem hægt verði að framleiða allt að 340 þúsund tonn á ári. Gert er ráð fyrir að einnig verði reist vatnsorkuver til að framleiða rafmagn fyrir álverið og höfn.

Í sameiginlegri tilkynningu Alcoa og grænlensku heimastjórnarinnar, sem birt er á heimasíðu álfélagsins, segir m.a. að samkvæmt samkomulaginu verði hafist handa við staðarval, mat á framkvæmdum og aðra þætti. Reynist niðurstaða af þessu jákvæð sé reiknað með því að byrjað verði að reisa raforkuverið árið 2010 og álverið 2012. Álverið gæti síðan tekið til starfa 2014.

Fram kemur að bæjarfélögin í Nuuk, Sisimiut og Maniitsoq hafi öll bent á hugsanlega staði fyrir verksmiðjuna og muni taka þátt í undirbúningnum.

Verði af framkvæmdum yrði um að ræða einhverja mestu fjárfestingu í sögu Grænlands og hún muni hafa mikil áhrif á efnahag landsins. M.a. verði um 600 ný störf til.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK