Viðræður um sölu á Woolworths

Baugur á 10% hlut í Woolworths
Baugur á 10% hlut í Woolworths AP

Lokað hefur verið fyrir viðskipti með verslunarkeðjuna Woolworths í Kauphöllinni í Lundúnum. Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að viðræður standi yfir um sölu á verslunum keðjunnar. Í ágúst gerði Malcolm Walker,  forstjóri Iceland verslunarkeðjunnar, sem er í eigu Baugs og félaga tengdum Baugi, tilboð í allar smásöluverslanir Woolworths og var Baugur meðal þeirra fjárfesta sem tóku þátt í tilboðinu, sem  var hafnað. Baugur á 10% hlut Woolworths.

Heimildir breska dagblaðsins Guardian herma að stjórnendur Woolworths eigi í viðræðum við Hilco um kaup á rúmlega 800 smásöluverslunum Woolworths. Hilco hefur fjárfest í ýmsum fyrirtækjum og er þess skemmst að minnast að félagið keypti MK One af Baugi fyrr á árinu. Skömmu síðar fór MK One í greiðslustöðvun.

Samkvæmt Guardian er tilboð Hilco metið á 1 pund. Síðustu viðskipti með félagið var á 3,20 pens á hlut í Kauphöllinni í Lundúnum. Hæst fóru hlutabréf Woolworths í 24,50 pens á hlut í ágúst á síðasta ári. Hins vegar lægst í 2,63 pens þann 8. október sl.

Í The Times í dag kemur einnig fram að talið sé að kaupverðið sé eitt pund en viðræður standi yfir um hve mikið af 385 milljón punda skuldum Woolworths fylgja með í kaupunum. Ef af kaupunum verður þá verður fátt eftir af gamla fyrirtækinu, dvd útgáfufélag og EUK dreifingarfyrirtækið.

Frétt Guardian í dag

Frétt Times Online 


mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir