Hent úr skólanum fyrir að vera of lengi

„Það var í fyrsta skipti sem mér var hent út úr skólanum af því að klukkan var að verða of margt. Það var svo gaman að klippa,“ segir Eyrún Helga sem starfar sem klippari hjá Símanum en er líka með dellu fyrir Disney-húðflúrum og Model-fitness.

Eyrún hefur bæst í hóp Fagfólksins á mbl.is sem er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins og mbl.is.

Eyrún var í námi í margmiðlunarhönnun í Borgarholtsskóla þegar hún kom fyrst nálægt kvikmyndagerð. Leiðin hafði alla tíð legið í átt að grafískri hönnun en eftir að hafa farið í stuttmyndaáfanga var ekki aftur snúið „Það var í fyrsta skipti sem mér var hent út úr skólanum af því að klukkan var að verða of margt. Það var svo gaman að klippa,“ segir Eyrún sem klippir mikið af auglýsingum og kynningarefni í starfi sínu hjá Símanum en auk þess vinnur hún að því efni sem framleitt er hjá Sjónvarpi Símans.

Skemmtilegast segir hún vera að klippa leikið efni og það verkefni sem henni hefur þótt vera skemmtilegast að taka þátt í er gamanþáttaröðin Hæ Gosi sem sýnd var á Skjánum. „Þú þarft að þekkja persónurnar rosalega vel og vinna náið með leikstjóranum því klippingin skiptir mjög miklu máli.“ Stundum komi upp ágreiningur um hvaða leið sé rétt að fara og þá sé nauðsynlegt að prufa mismunandi útfærslur til að komast að niðurstöðu.

Disney-húðflúr og Model-fitness

Eyrún er að eigin sögn mikil keppnismanneskja og hún var fljótlega farin að leita leiða til að keppa eftir að hafa fengið mikinn áhuga á líkamsrækt. Skemmtilegast þykir henni að lyfta, ná settum markmiðum og þar af leiðandi árangri. Eyrún hefur tvisvar sinnum keppt í Model-fitness og þá þarf að skera niður fitu í 12-16 vikur fyrir keppni en markmiðið er ná fram íþróttamannslegum vexti.

Annað áhugamál hennar eru húðflúr en hún heldur mikið upp á teiknimyndir og er með stóra mynd af Mjallhvíti og öðrum persónum úr myndinni sígildu á hægri upphandlegg. Á döfinni er að fá annað stórt Disney-húðflúr á lærið en hún er ekki tilbúin til að gefa það upp hvaða persóna muni fá heimili þar.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK