Dvöldu skemur og eyddu minna

Vegna aðstæðna sem skapast hafa vegna falls WOW air hefur ...
Vegna aðstæðna sem skapast hafa vegna falls WOW air hefur Ferðamálastofa dregið saman lykilniðurstöður úr könnun meðal erlendra ferðamanna. mbl.is/Hari

Samsetning ferðamanna sem flugu með WOW air eftir markaðssvæðum var ólík samsetningu ferðamanna Icelandair og annarra flugfélaga. Hlutfall ferðamanna í yngri aldurshópum var hærra hjá WOW air en hjá öðrum flugfélögum og útgjöld farþega WOW air voru lægri en annarra.

Þetta kemur fram í niðurstöðu úr könnun sem Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna, sérstaklega eftir flugfélagi. Var hún gerð til að fá mynd af ferðamynstri þeirra sem komu með WOW air á síðasta ári.

Þar kemur einnig fram að ferðamenn WOW air dvöldu skemur á landinu en aðrir ferðamenn en munurinn var mestur yfir sumartímann.

Meðaldvalarlengd ferðamanna á Íslandi var 6,3 nætur árið 2018. Ferðamenn með WOW air gistu að jafnaði sex nætur, ferðamenn með Icelandair 6,4 og þeir sem komu með öðrum flugfélögum 6,5 nætur og er þar marktækur munur á. Dvalarlengd ferðamanna var lengst að sumri (maí-sept), eða 6 nætur í maí, 6,6 í júní, 7,2 í júlí og 8 í ágúst.

WOW air ferðamenn gistu styttra alla þessa mánuði en ferðamenn sem komu með öðrum flugfélögum. Þegar einstaka mánuðir eru skoðaðir munar allt að einni gistinótt. WOW ferðamenn gistu t.d. að jafnaði 6,6 gistinætur í ágúst en ferðamenn með Icelandair 8,1 og þeir sem komu með öðrum flugfélögum 8,7.

Samkvæmt könnun Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands voru meðalútgjöld vegna Íslandsferðar á mann 208.900, 238.500 að sumri til (maí-sept.) og 177.00 að vetri til (janúar-mars/okt.-des). Þegar niðurstöður eru skoðaðar eftir því með hvaða flugfélagi var ferðast kemur í ljós að meðalútgjöld WOW air ferðamanna voru lægri en Icelandair ferðamanna og þeirra sem komu með öðrum flugfélögum. 

Meðalútgjöld WOW air ferðamanna voru 189.600 árið 2018, 222.400 að sumri og 151.700 að vetri.  Inni í tölum er áætlaður allur kostnaður, þ.m.t. flug með erlendum flugfélögum og kostnaður sem fellur til vegna bókunar á gistingu, ferðum og afþreyingu í tengslum við pakkaferðir.  

mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir