„Vöxturinn verið ævintýralegur og verðskuldaður“

„Í svona ungri atvinnugrein snýst óvissan um hvar jafnvægi er að finna. Gögn og áreiðanlegar upplýsingar eru af skornum skammti og það er áskorun fyrir Landsbankann sem og aðra,“ sagði Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, á ferðaþjónusturáðstefnu Landsbankans sem fer nú fram í Hörpu.

Hún bætti því við að vöxtur ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar á Íslandi síðustu ár hefði verið „ævintýralegur og verðskuldaður“ enda Ísland frábær áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn.

Lilja setti fundinn formlega áður en dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, fór yfir niðurstöður greiningar Landsbankans. Á eftir honum hélt Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, erindi undir yfirskriftinni Erfitt ár en víða vöxtur og bjartsýni.

Fjölmenni situr nú ráðstefnuna sem fer fram í Hörpu.
Fjölmenni situr nú ráðstefnuna sem fer fram í Hörpu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í máli Gústafs kom fram að meiri bjartsýni ríki hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu fyrir næsta ár en var á þessu ári og að tvöfalt fleiri aðilar í ferðaþjónustu geri ráð fyrir tekjuvexti en samdrætti. Bjartsýnin er heldur meiri hjá ungu fólki og þá eru aðilar sem bjartsýnir eru á vaxtarmöguleika ferðaþjónustunnar næstu 2 til 3 árum helmingi fleiri en þeir sem eru neikvæðir.

Þá kom fram að yngstu ferðaþjónustufyrirtækin væru háðari erlendum ferðamönnum en hópar eldri fyrirtækja og að eitt af hverjum sjö ferðaþjónustufyrirtækjum væri með helming tekna sinna frá innlendum ferðamönnum.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Innlendir ferðamenn gleymast oft,“ sagði Gústaf og bætti við að þeir væru ástæða þess að fall WOW air hafi ekki haft meiri áhrif á ferðaþjónustuna en raun ber vitni.

Þá kom fram í könnun sem Gallup gerði fyrir greiningardeild Landbankans að nýgerðir kjarasamningar hefðu haft meiri áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki, að sögn forsvarsmanna þeirra, en fall WOW air. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK