Hefur áhrif á 1.000 starfsmenn Össurar á heimsvísu

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í gær var greint frá því að 165 starfsmenn stoðtækjafyrirtækisins Össurar á Íslandi hafi lækkað í starfshlutfalli um 50% og séu komnir í svokallaða hlutstarfaleið stjórnvalda. Þetta er um þriðjungur starfsmanna fyrirtækisins hér á landi, en í heild eru nú um þúsund starfsmenn Össurar á heimsvísu í einhverskonar skertu starfshlutfalli. Samtals starfa um fjögur þúsund manns hjá fyrirtækinu og ná því núverandi aðgerðir til fjórðungs starfsfólksins. Þetta segir Jón Sigurðsson, forstjóri félagsins, í samtali við mbl.is.

40-60% sölusamdráttur á öðrum ársfjórðungi

Á fyrsta ársfjórðungi var um 5% sölusamdráttur hjá fyrirtækinu, en það helgaðist allt af samdrætti í sölu í mars eftir að janúar og febrúar höfðu verið öflugir mánuðir. Sölusamdrátturinn í apríl er hins vegar 45% og segir Jón að fyrirtækið hafi gefið út að samdrátturinn geti verið 40-60% á öðrum ársfjórðungi. Segir hann það fordæmalaust fyrir stjórnendur að vinna með svo stórt bil í fyrirtæki sem þessu.

Tekið var fram í uppgjöri fyrsta ársfjórðungs að Evrópa og Kína, sem eru lykilmarkaðir, væru byrjaðir að taka nokkuð við sér. Stærsti einstaki markaður fyrirtækisins er hins vegar Bandaríkin, en þar er um 45% sala þess. Er það svipað hlutfall og í allri Vestur-Evrópu. Segir hann að svo virðist vera sem Bandaríkin séu að taka seinna við sér, en það sé í samhengi við að þar hafi faraldurinn komið seinna upp og útlit sé fyrir að landið verði seinna að koma úr faraldrinum. Jón ítrekar þó að það sé bara getspá hjá honum með þróun faraldursins, aðrir séu betur hæfir til að spá fyrir um þróun hans.

„Við höfum séð bata síðustu tvær vikur á nánast öllum mörkuðum, líka í Bandaríkjunum. En það er oft fljótt að draga neinar ályktanir strax af því,“ segir Jón.

Ætla ekki að nýta önnur úrræði

Hlutabótaleið stjórnvalda hér á landi í núverandi mynd gildir til júní. Spurður hvort hann telji að starfsmenn fyrirtækisins hér á landi geti snúið aftur í fullt starf eftir þann tíma segir hann að það fari allt eftir því hvernig mál þróist. Félagið hafi gripið til sambærilegra aðgerða á öðrum starfsstöðvum sínum og af fjögur þúsund starfsmönnum hafi félagið sett um þúsund manns í það heila í skert starfshlutfall. „Það er mjög misjafnt eftir löndum hvað stjórnvöld bjóða upp á. Við nýtum þau úrræði til að verja störfin,“ segir Jón.

Ýmiss önnur úrræði hafa verið kynnt af stjórnvöldum hér til að mæta tekjusamdrætti fyrirtækja. Jón segir Össur vera vel fjármagnað og að það ætli sér ekki að nýta nein slík úrræði sem fram hafi komið og nefnir hann sérstaklega brúarlánin í því samhengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK