Hallinn gæti orðið 300 milljarðar króna

Galtómur Laugavegur fyrir tæpum mánuði.
Galtómur Laugavegur fyrir tæpum mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halli ríkissjóðs vegna áhrifa kórónuveirunnar gæti orðið svipaður og samdráttur landsframleiðslu eða um 300 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar, dósents í hagfræði við Háskóla Íslands, við spurningu á Vísindavefnum um efnahagstjónið af völdum COVID-19.

Hann bendir þó á að erfitt sé að meta hversu mikill hallinn verður, enda spár um það mjög ónákvæmar.

Lykilforsendur óþekktar

Gylfi segir margt vera óljóst um áhrif faraldursins á efnahagslífið. Lykilforsendur séu óþekktar, þar á meðal hve langan tíma tekur að ná tökum á faraldrinum. „Þannig er til dæmis ekki vitað hvort hann muni blossa upp að nýju á Íslandi eða öðrum löndum þar sem sýkingum hefur fækkað til muna. Ekki er vitað hvort og þá hvenær bóluefni verður í boði eða lækning. Það er erfitt að spá fyrir um efnahagsáhrifin án þess að hafa skýr svör frá heilbrigðisvísindunum um slíka þætti. Jafnvel þótt slík svör fengjust er þó erfitt að meta efnahagsáhrifin enda ekki hægt að byggja spár á skýrum fordæmum,“ skrifar hann.

Fjármálakrísan nærtækasta dæmið

Gylfi bendir á spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um 7,2% samdrátt hérlendis í ár og svartsýnni spár Seðlabankans, Íslandsbanka og Landsbankans þar sem gert er ráð fyrir 8 til 9% samdrætti.

„Miðað við þessar spár minnkar verðmætasköpun íslenska hagkerfisins því um 7-9% af því eða 210-270 milljarða króna árið 2020. Að auki verður ekki sá hagvöxtur sem spáð hafði verið sem hækkar matið á efnahagsáfallinu um um það bil 50 milljarða króna. Þá er rétt að hafa í huga að efnahagsáfallið kemur örugglega ekki allt fram í ár því að áhrifanna mun örugglega einnig gæta á næsta ári og mjög líklega eitthvað lengur,“ skrifar hann.

Óljóst er hversu langan tíma tekur fyrir efnahagslífið að jafna sig, að mati Gylfa. Nærtækasta dæmið sé fjármálakrísan fyrir rúmum áratug. Miðað við spár gæti samdrátturinn orðið svipaður og þá. „Þá dróst hagkerfið saman í tvö ár og var svo um það bil fjögur ár til viðbótar að ná aftur sömu umsvifum og fyrir krísu.“

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. mbl.is/​Hari

Getur skilað framförum 

Hann tekur fram að faraldurinn gæti að einhverju leyti skilað framförum og ávinningi fyrir efnahagslífið til lengri tíma. Nefnir hann dæmi um fjarvinnu, fjarfundi og sölu á vörum og þjónustu í gegnum netið.

„Þótt þetta hafi verið neyðarráðstöfun við sérstakar aðstæður þá segir sagan okkur að tilraunir sem þessar geta haft varanleg áhrif. Það gæti svo aftur haft jákvæð umhverfisáhrif, til dæmis vegna minni ferðalaga til og frá vinnu eða vegna funda eða skilvirkari dreifingar á vörum og þjónustu,“ skrifar Gylfi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK