200 milljóna tekjufall en engar uppsagnir

Búið er að loka og læsa skálum FÍ á Laugaveginum, …
Búið er að loka og læsa skálum FÍ á Laugaveginum, Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Botnum á Emstrum. Áfram er opið í Landmannalaugum og í Langadal og verður til 5. október. Ljósmynd/Halldór Hafdal Halldórsson

Þrátt fyrir allt að 200 milljóna tekjufall í skálarekstri, sem jafngildir 60% tekjufalli, hefur Ferðafélag Íslands (FÍ) ekki þurft að grípa til uppsagna. Íslendingar hafa sýnt ferðum hjá félaginu áhuga sem aldrei fyrr og hefur félögum í FÍ fjölgað um 2.000 manns á árinu. Þetta segir Páll Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri Ferðafé­lags Íslands. 

„Þetta var náttúrulega afar sérstakt sumar og eiginlega svona rússíbanareið í okkar starfi. Það var mikil óvissa og stöðugt verið að breyta og aðlaga sig að skilaboðum frá þríeykinu,“ segir Páll í samtali við mbl.is. 

Í apríl og maí urðu þau hjá FÍ vör við gríðarlega mikinn áhuga á ferðalögum innanlands og því að fólk væri farið út að ganga, bæði í nærumhverfinu í vor en síðan til fjalla þegar sumarið brast á.

„Við sáum það í þátttöku í ferðum og skráningum í félagið svo það voru sannarlega jákvæðar hliðar sem birtust hjá okkur í þessum aðstæðum. Það hefur fjölgað í félaginu um næstum því 2.000 félaga. Við erum að láta okkur dreyma um að ná 10.000 greiðandi félagsmönnum fyrir áramót,“ segir Páll.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að það hafi verið …
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að það hafi verið erfitt að aflýsa um 20 fullbókuðum ferðum í sumar en FÍ hafi viljað ganga langt fram í því að sýna ábyrgð.

Hrun í bókunum í kjölfar hertra aðgerða

„Það varð mikill samdráttur í skálarekstrinum. Það má segja að samdrátturinn hafi að lokum orðið 60% þrátt fyrir að það hafi litið alveg ágætlega út, júlímánuður verið nokkuð góður og ágústmánuður leit vel út. Þegar tveggja metra reglan var aftur tekin upp sem og tvöföld skimun varð mikið hrun í bókun í skálunum hjá okkur,“ segir Páll.

Mestur varð samdrátturinn í skálum á Laugaveginum enda venjulega mest um ferðamenn þar. FÍ aflýstu hátt í 20 ferðum í ágúst og á seinni hluta sumars í kjölfar hertra aðgerða sem miðuðu að því að takmarka útbreiðslu veirunnar hérlendis. 

„Það var mjög erfitt. Þetta voru allt saman fullbókaðar ferðir og mikill áhugi en um leið vorum við alveg ákveðin í því að ganga mjög langt fram í því að sýna ábyrgð og hikuðum ekki við að aflýsa og vorum ekki með neinn afslátt á því. Við hefðum getað aðlagað okkur að einstaka ferðum en við kusum að aflýsa og byrja svo upp á nýtt þegar slakað yrði á,“ segir Páll. 

Það er orðið vetrarlegt um að lítast í skála FÍ …
Það er orðið vetrarlegt um að lítast í skála FÍ í Hrafntinnuskeri. Hann stendur við Laugaveginn. Ljósmynd/Halldór Hafdal Halldórsson

„Tvöfalt uppselt“

Hann horfir björtum augum á veturinn enda virkilega mikil þátttaka í fjallaverkefnum sem fóru af stað í september og ná fram að áramótum. 

„Þar var allt uppselt hjá okkur og meira að segja tvöfalt uppselt þannig að við bættum við auka hópum. Þeir seldust líka upp svo við erum með fleiri hundruð manns í fjallaverkefnum eða hreyfiverkefnum af ýmsu tagi. Það er auðvitað gríðarlega ánægjulegt að sjá það.“

Þrátt fyrir mikið tekjufall segir Páll að Ferðafélag Íslands standi keikt og ekki hafi þurft að ráðast í neinar uppsagnir.

„Við erum að horfa á allt að 200 milljóna króna tekjufall í skálarekstrinum hjá okkur. Við vorum mikið að vinna eftir þeirri sviðsmynd og stilltum henni upp í mars. Við erum alla vega að lenda standandi og erum tilbúin til þess að fara af stað af fullum krafti á nýju ári.“

Íslendingar voru iðnir við að ferðast innanlands í sumar enda erfitt að fara til útlanda. Páll telur að þau áhrif veirunnar verði langtímaáhrif.

„Fleiri Íslendingar hafa núna kynnst því hvað er frábært að ferðast um Ísland, ekki síst á sumarmánuðum. Margir stigu þarna sín fyrstu skref í útivist og fjallamennsku og eflaust munu margir halda því áfram. Þetta er alveg klárlega nýr og stór hópur sem við höfum séð koma inn í starfið hjá okkur.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK