Heimilin taka tugi milljarða að láni

Ekkert lát er á lántökum heimilanna um þessar mundir og þó að lítillega hafi dregið úr lánveitingum milli júlí og ágúst þá er ágúst næst umfangsmesti mánuður í útlánum bankanna frá upphafi mælinga. Frá apríl hefur hver metmánuður verið sleginn á fætur öðrum í hreinum nýjum útlánum bankanna.

Útlánin náðu hæstu hæðum í júlí þegar hrein ný útlán bankanna á óverðtryggðum lánum námu um 42,1 milljörðum en í ágúst var örlítil lækkun og námu þau um 37,5 milljörðum. Þar af námu hrein ný útlán bankanna á óverðtryggðum lánum um 43,2 ma. kr. en á verðtryggðum lánum voru þau neikvæð um 5,6 milljarða.

„Á sama tíma hafa uppgreiðslur lífeyrissjóðslána aukist mikið og hafa umsvif lífeyrissjóða á lánamarkaði ekki verið minni eins langt og gögnin ná til, eða ársins 2013. Í júlí og ágúst síðastliðnum voru útgefin lán lífeyrissjóða neikvæð, sem þýðir að meira var um uppgreiðslur en um ný lán en hreinar uppgreiðslur sjóðanna í ágúst námu tæplega 5 milljörðum.

Má rekja þessar sviptingar til þess að vextir eru hér í sögulegu lágmarki og hafa heimilin í stórauknum mæli verið að færa sig úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð, þar sem kjör á óverðtryggðum lánum hafa aldrei verið hagstæðari en nú,“ segir í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Betri kjör hjá bönkunum

Bankarnir hafa verið að bjóða betri lánakjör en lífeyrissjóðir og því hefur færslan að mestu verið frá lífeyrissjóðum yfir í bankana. Hlutdeild óverðtryggðra lána af öllum útistandandi lánum hefur vaxið hratt á undanförnum mánuðum þar sem heimilin hafa að miklu leyti fært sig úr vertryggðum í óverðtryggð lán. Til að mynda þá hækkaði hlutfall óverðtryggðra lána af útistandandi útlánum milli júlí og ágúst um næstum tvö prósentustig, eða úr 32,8% í 34,5% sem verður að teljast mikil hækkun milli mánaða.

Ef litið er á allt árið þá hefur hlutfall óverðtryggðra lána hækkað um sjö prósentustig, þar sem óverðtryggð lán hafa í heild aukist um 155 milljarða á því tímabili og verðtryggð lán hafa lækkað um 70 milljarða á móti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK