Sensa seld á 3,25 milljarða

Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa.
Valgerður Hrund Skúladóttir, framkvæmdastjóri Sensa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norska tæknifyrirtækið Crayon hefur keypt dótturfélag Símans, Sensa ehf., á 3,25 milljarða króna.

Sensa er upplýsingatæknifyrirtæki og eru starfsmenn þess 115, þar af vinna 91 við ráðgjöf og upplýsingatækni.

Crayon er með höfuðstöðvar í Ósló og er fyrirtækið skráð í kauphöllina í Ósló. Hjá fyrirtækinu starfa um 1.700 manns en fyrirtækið er með 55 starfsstöðvar í 35 löndum, í Evrópu, Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Asíu.

Crayon starfar við eignastýringu hugbúnaðar, skýja- og hugbúnaðarleyfissamninga og tengda ráðgjafarþjónustu. Árið 2019 var Crayon valið af Microsoft sem samstarfsaðili ársins við þróun gervigreindar og vélanáms (e. machine learning), samkvæmt fréttatilkynningu.

Tveir þriðju hlutar kaupverðsins verða greiddir með reiðufé og einn þriðji með hlutabréfum í Crayon Group Holding ASA. Sá hluti kaupverðsins sem greiddur er með bréfum í Crayon er bundinn til tólf mánaða frá undirritun kaupsamnings. Einn tólfti (1/12) hans er laus til sölu um hver mánaðamót sem líða þar frá.

Undanfarin tvö ár hefur EBITDA Sensa verið í kringum 4% af heildar EBITDA Símasamstæðunnar samkvæmt tilkynningu. Áætlaður söluhagnaður Símans vegna viðskiptanna er 1,7 milljarðar króna.

Sensa heldur áfram starfsemi undir eigin merkjum og mun Síminn eftir sem áður vera einn af lykilviðskiptavinum fyrirtækisins. Samhliða gerð kaupsamningsins hafa Síminn og Crayon lagt drög að samstarfi milli félaganna sem mun styrkja vöruframboð og þjónustu Símans á sviði upplýsingatækni fyrir minni og millistór fyrirtæki. Síminn mun því áfram starfa á sviði upplýsingatækni í samstarfi við Sensa og Crayon.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK