Kaupa allan Heklureit og stefna á framkvæmdir í ár

Skipulagstillaga Yrki arkitekta fyrir Heklureitin og nærliggjandi svæði, en tillagan …
Skipulagstillaga Yrki arkitekta fyrir Heklureitin og nærliggjandi svæði, en tillagan hlaut fyrsta sæti í lokaðri hugmyndasamkeppni Reykjavíkurborgar um framtíðarskipulag svæðisins. Teikning/Yrki arkitektar

Framkvæmdafélagið Laugavegur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllum fasteignum á svokölluðum Heklureit, sem nær til Laugavegar 168 og til og með 174. Svæðið er enn í deiliskipulagsferli, en samkvæmt deiliskipulagstillögu er gert ráð fyrir allt að 463 íbúðum auk þjónustu og atvinnuhúsnæði á jarðhæð. Gangi skipulagsvinnan vel gera forsvarsmenn félagsins ráð fyrir því að geta hafið framkvæmdir á þessu ári

Örn V. Kjartansson leiðir verkefnið, en auk hans standa fleiri fjárfestar að því. Örn hefur áður m.a. starfað sem framkvæmdastjóri FÍ fasteignafélags, framkvæmdastjóri Kringlunnar og hjá Stoðum, sem síðar varð Landic, en hann stýrði innlendum hluta félagsins sem varð grunnurinn að fasteignafélaginu Reitum.

Hekla getur verið á reitnum í þrjú ár og mögulega lengur

Reiturinn markast af fimm uppbyggingareitum sem ná frá Laugavegi 168, sem er á gatnamótum Laugavegs og Nóatúns, hinu megin við Nótatún frá starfsstöðvum Skattsins, en þar var m.a. Varmi hf. áður til húsa. Örn segir að það sé sá reitur sem verði byrjað á og svo verið haldið áfram í austur átt að Laugavegi 170 og 172, þar sem meðal annars Galaxy pod hostel hefur verið og fleiri fyrirtæki.

Heklureiturinn nær yfir þá fimm reiti sem liggja næst Laugavegi …
Heklureiturinn nær yfir þá fimm reiti sem liggja næst Laugavegi og Nóatúni, þ.e. þeir fimm reitir sem liggja meðfram Laugaveginum og eru lengst til vinstri á myndinni. Teikning/Yrki arkitektar

Bílaumboðið Hekla er svo með höfuðstöðvar sínar, verkstæði og söluplan á Laugavegi 174. Örn segir að Hekla geti áfram verið á reitnum í allt að þrjú ár með möguleika á framlengingu, en tímalengdin fari eftir áformum félagsins um að flytja sig í burtu.

Vonast til að skipulagsvinna klárist í sumar

Örn segir að vonir standi til með að nýtt deiliskipulag verði samþykkt í sumar og að þá geti niðurrif á fyrstu reitunum hafist og uppbygging í kjölfarið með haustinu. „Við hyggjum hefja framkvæmdir eins fljótt og auðið er.“ Spurður hvort eitthvað af núverandi húsnæði verði áfram nýtt eða hvort rífa eigi allt og byggja á ný segir hann að gert sé ráð fyrir að allar núverandi fasteignir á reitnum víki.

Hann segir að samkvæmt núverandi deiliskipulagshugmynd sé gert ráð fyrir að meðalstærð íbúða verði um 85 fermetrar, en einnig er ákveðið hlutfall íbúða sem eigi að vera tveggja-, þriggja-, fjögurra- og fimmherbergja. „Það á því að verða talsverð fjölbreytni í stærð íbúða þarna,“ segir hann. Á fyrstu tveimur reitunum er gert ráð fyrir annars vegar 91 íbúð og hins vegar 115 íbúðum. Örn segir að almennt sé horft til þess að byggingarnar verði sjö hæða, nema að hluta til á reit A, eða við Laugaveg 168, þar sem tillagan gerir ráð fyrir að hluti reitsins verði með átta hæðir.

Í stjórn félagsins ásamt Erni eru þeir Davíð Másson og Halldór Hafsteinsson, en þeir hafa meðal annars verið kenndir við Atlanta og Avion flugfélögin. Örn segir jafnframt hóp bæði innlendra og erlendra fjárfesta standa á bak við verkefnið, en ekki er enn hægt að sjá hluthafa í gögnum Skattsins. Þar kemur þó fram að Örn er skráður fyrir tæplega 35% hlut í Framkvæmdafélaginu Laugavegi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK