Fá áfallahjálp áratugum síðar

Benóný Ásgrímsson, Óttar Sveinsson, Guðmundur Arason, Bogi Agnarsson og Páll …
Benóný Ásgrímsson, Óttar Sveinsson, Guðmundur Arason, Bogi Agnarsson og Páll Halldórsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þrjátíu og fjórir skipbrotsmenn berjast upp á líf og dauða í flaki togarans Egils rauða, sem strandað hefur í foráttubrimi undir hrikalegu hamrastáli Grænuhlíðar í Ísafjarðardjúpi. Um þetta fjallar meðal annars nýjasta bindið í bókaflokki Óttars Sveinssonar: „Útkall – Þrekvirki í Djúpinu“.

Bókin er sú 25. í röðinni, á jafnmörgum árum, en í samtali við Morgunblaðið segir Óttar að í þetta sinn fjalli hann um björgunarafrek í Ísafjarðardjúpi árið 1955, og atburði í kjölfarið sem tengjast söguhetjum þess.

Í tilefni af útgáfu bókarinnar flaug Óttar, ásamt fyrrverandi flugstjórum þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar, þeim Benóný Ásgrímssyni, Boga Agnarssyni og Páli Halldórssyni, á þyrlu Gæslunnar til Hveragerðis fyrr í mánuðinum. Þar hittu þeir fyrir Guðmund Arason, sem einn er eftir á lífi af skipverjum Egils rauða.

„Hann er sá eini sem enn er á lífi af þeim sem komust af í slysinu,“ segir Óttar. „Við gáfum honum fyrsta eintakið.“

Flugstjórarnir þrír eru eiginlegir guðfeður bókaflokksins, að sögn Óttars. „Þeir hófu þessa vegferð með mér fyrir 25 bókum, en fyrsta bókin fjallaði um ellefu sögulegustu ferðir þeirra. Bækurnar áttu ekki að verða fleiri, en síðan vaknaði svo mikill áhugi á þessu bæði hér á landi sem erlendis að boltinn fór að rúlla og hefur ekki stoppað síðan.“

Eftir að hafa verið að í aldarfjórðung og gefið út 25 bækur um margar þær hörmungar og hildarleiki sem þjóðin hefur upplifað segist Óttar hafa upplifað að með því að segja frá reynslu sinni hafi fólk í mörgum tilfellum fengið nokkurs konar síðbúna áfallahjálp. Nefnir hann sem dæmi skrif sín um snjóflóðin sem féllu á Neskaupstað.

„Ég var að skrifa um atburðina einum 38 árum eftir að þeir eiga sér stað og árið 1974 fyrirfannst engin áfallahjálp. Tólf manns höfðu farist, áttatíu prósent af atvinnustarfsemi bæjarins höfðu verið eyðilögð og það sem menn hugsuðu var að spýta þyrfti í lófana. „Við verðum bara að halda áfram,“ hugsaði fólk. Svo kemur einhver maður úr Reykjavík 38 árum síðar og byrjar að ræða við fólkið, og skömmu eftir það er eins og flóðgáttir hafi verið opnaðar,“ segir Óttar og bætir við að hann hafi upplifað mikið þakklæti frá þeim sem upplifðu atburðina og aðstandendum þeirra.

„Ég hef aldrei fengið jafnmiklar þakkir og þá. Mjög mörgum fannst greinilega gott að opna á þessar minningar.“

Áfallahjálpin hófst árið 1995

Óttar nefnir einnig bók sína um slysið á jólanótt árið 1986, þegar flutningaskipið Suðurland sökk miðja vegu milli Íslands og Noregs. Sex manns fórust þessa nótt, en fimm var bjargað.

„Þegar ég byrja að ræða við mennina fimm þá kemur í ljós að þeir höfðu mismikið tjáð sig um þetta og einn þeirra hafði aldrei rætt þessa reynslu sína. Og þetta finnst manni standa hátt upp úr þegar litið er til baka, hvað fólki hefur mörgu hverju fundist gott að opna fyrir og tjá sig um atburðina.“

Almennt hefur verið litið svo á að það hafi ekki verið fyrr en í snjóflóðunum á Súðavík og Flateyri árið 1995 sem byrjað var að bjóða upp á áfallahjálp eins og hún þekkist í dag. „Og það var hann Rudolf Adolfsson geðhjúkrunarfræðingur sem að ég held fann upp þetta orð í byrjun tíunda áratugarins. Síðan verða þessar hörmungar árið 1995 og þá fer þjóðin fyrst að heyra á þetta hugtak minnst.“

Óttar bendir einnig á að þá fyrst hafi hluti íbúa Neskaupstaðar fengið áfallahjálp vegna sinnar reynslu rúmum tveimur áratugum áður. „Þessi flóð vöktu slæmar minningar þeirra og þá rann þetta upp fyrir mönnum – „já, það þarf að hjálpa þeim líka“.“

Spurður hvort hann finni mun eftir kynslóðum á því hversu auðvelt fólk eigi með að opna sig og deila reynslu sinni segir Óttar að svo sé vissulega. Tekur hann dæmi um björgunaraðgerðirnar við Látrabjarg, þegar togarinn Dhoon strandaði þar 12. desember árið 1947. „Í raun er þetta björgunarafrek aldarinnar og það sem ég skrifa um í ár er það sem mér finnst að mörgu leyti koma þar á eftir. En þarna árið 1947 fór af stað þessi þriggja daga björgun þar sem björgunarmenn lögðu sig í ótrúlega hættu og aðstandendur þeirra héldu jafnvel að þeir kæmu ekki til baka,“ segir Óttar.

Svo fór að björgunarmenn, aðallega bændur af nærliggjandi bæjum, sigu niður bjargið og björguðu tólf skipverjum. Þrír úr áhöfninni voru þá þegar drukknaðir.

„Þegar afrekið var að baki ræddu menn helst ekki þessa hluti í mörg ár á eftir. Þegar ég ræði við afkomendur þessara manna er mér sagt að feður þeirra hafi margir hverjir aldrei talað um björgunina. Dóttir eins þeirra gaf mér þau svör að ekki hefði verið talað um það sem hefði verið erfitt. Og svona var viðhorf þjóðarinnar – maður harkaði bara af sér. Svo var það ekkert rætt meir.“ Afleiðingar þessa viðhorfs geta og hafa verið ýmiss konar eins og Óttar rekur í dæmi um tólf ára stúlku sem missti móður sína í snjóflóðinu í Neskaupstað. „Sú stúlka segir mér að þessir atburðir hafi mjög lítið verið ræddir í kjölfarið. En hún nefnir líka að hún hafi eitt sinn verið að ganga um bæinn, og var að fara að mæta fjölskyldu sem líka var á gangi, þegar fjölskyldan færði sig yfir götuna og á gangstéttina hinum megin áður en til þess kæmi að þau mættust. „Af hverju?“ spurði ég stúlkuna, sem auðvitað er fullorðin kona í dag. Jú, þau vissu ekki hvernig þau áttu að koma fram við hana. Þau vissu ekki hvernig þau áttu að koma fram við barnið í sorginni. Þetta lýsir því svolítið hvernig við erum þegar við vitum ekki hvernig við eigum að höndla tilfinningarnar. Allt þetta byggðarlag var í sorg, en svo var bara haldið áfram.“

„Vorum allir á sama báti“

Og þótt enginn láti lífið geta áföllin falist í ýmsu öðru. „Til dæmis Vestmannaeyjagosið. Þar á sér stað ein stærsta rýmingaraðgerð aldarinnar á friðartímum: Flóttinn frá Heimaey. Allur bærinn, fimm þúsund manns, fluttur í land á einhverjum sex klukkutímum um borð í sjötíu bátum. Þetta er náttúrlega áfall. Þú siglir úr höfninni og horfir til baka á eins og hálfs kílómetra langa logandi sprungu. Þú horfir á eyjuna þína loga stafna á milli og veist ekki hvort þú munt koma til með að búa þarna. Þetta er áfall.“

Óttar segir mikla hjálp felast í því að sjá félaga sína ræða sína upplifun af sömu atburðum. „Hásetinn er kannski að tjá sig, stýrimaðurinn gerir það líka, vélstjórinn og svo skipstjórinn. Svo líta þeir yfir frásögnina og hugsa: „Já, við vorum allir á sama báti.“ Þarna færðu samkenndina og þaðan færðu styrkinn. Ég tala kannski við tíu, fimmtán manns þegar ég skrifa bók og þegar horft er til baka átta þeir sig á að þeir upplifðu allir það sama þó að upplifun hvers og eins hafi ef til vill verið sérstök að einhverju leyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 392,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 201,19 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,16 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,74 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 154,91 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Hafþór SU 144 Grásleppunet
Grásleppa 1.116 kg
Þorskur 43 kg
Samtals 1.159 kg
26.4.24 Steini G SK 14 Grásleppunet
Grásleppa 679 kg
Þorskur 132 kg
Steinbítur 8 kg
Ufsi 5 kg
Þykkvalúra 2 kg
Sandkoli 1 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 828 kg
26.4.24 Kristín ÞH 15 Grásleppunet
Grásleppa 1.279 kg
Þorskur 84 kg
Ufsi 23 kg
Skarkoli 8 kg
Samtals 1.394 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 26.4.24 392,93 kr/kg
Þorskur, slægður 26.4.24 307,20 kr/kg
Ýsa, óslægð 26.4.24 201,19 kr/kg
Ýsa, slægð 26.4.24 78,16 kr/kg
Ufsi, óslægður 26.4.24 110,74 kr/kg
Ufsi, slægður 26.4.24 133,49 kr/kg
Djúpkarfi 9.4.24 38,00 kr/kg
Gullkarfi 26.4.24 154,91 kr/kg
Litli karfi 24.4.24 7,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 19.4.24 169,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

26.4.24 Hafþór SU 144 Grásleppunet
Grásleppa 1.116 kg
Þorskur 43 kg
Samtals 1.159 kg
26.4.24 Steini G SK 14 Grásleppunet
Grásleppa 679 kg
Þorskur 132 kg
Steinbítur 8 kg
Ufsi 5 kg
Þykkvalúra 2 kg
Sandkoli 1 kg
Skarkoli 1 kg
Samtals 828 kg
26.4.24 Kristín ÞH 15 Grásleppunet
Grásleppa 1.279 kg
Þorskur 84 kg
Ufsi 23 kg
Skarkoli 8 kg
Samtals 1.394 kg

Skoða allar landanir »