Hvað á að gera við ólétta stýrimenn?

Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður á Lagarfossi, segir tæknina hafa gert …
Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður á Lagarfossi, segir tæknina hafa gert starfið mun fjölskylduvænna. Ljósmynd/Aðsend

Í dag er allt of óalgengt að finna megi konur í áhöfnum íslenskra skipa. Þær eru síðan enn færri sem hafa unnið á skipum nánast allt sitt líf eins og Inga Fanney Egilsdóttir, stýrimaður á Lagarfossi.

Áhuginn kviknaði á unglingsárunum þegar Inga komst að því að jafnöldrur hennar sem fengu að slást með í för á humarveiðibátum voru að þéna langtum betur en önnur ungmenni sem hún þekkti. Á löngum ferli hefur Inga komið víða við, bæði á fiski- og flutningaskipum, sem kokkur, háseti, annar stýrimaður, fyrsti stýrimaður og yfirstýrimaður. Hún var meira að segja skipstjóri í nokkra daga á 100 manna ferðamannaferju og var send til Namibíu af íslenskum stjórnvöldum til að vera stýrimaður á rannsóknarskipi þar. Hún fann sér líka mann í sjómannastétt og eignaðist með honum son en það var eina skiptið sem Inga fór í land í lengri tíma. „Ég hafði reiknað það út að ef þáverandi vinnuveitandi minn myndi flytja mig á annað skip gæti ég haldið áfram störfum en verið minna á sjó, en slík breyting kom ekki til greina þegar um hana var beðið og ég man hvað ég var fúl, mest út í sjálfa mig, verandi í stjórn stýrimannafélagsins, yfir því að í samningum stýrimanna var ekkert að finna um hvað gera ætti við ólétta stýrimenn.“

Góð sátt um skiptingu verka á heimilinu

Núna er Inga rúmlega sextug og á stöðugri ferð á milli Íslands og Evrópulanda á skipum Eimskips. Hún unir sér vel á sjónum, liggur ekkert á að breyta til og bendir á að þó að starfi sjómannsins fylgi ákveðnir ókostir þá séu kostirnir líka margir.

„Hér áður fyrr, fyrir tíma gámavæðingarinnar, gafst oft tími til að skoða sig um í borgum og bæjum á meðan verið var að ferma og afferma. Það gerist ennþá, t.d. ef verið er að flytja járnblendi, að ef byrjar að rigna þarf að loka lestinni í hvelli því eitruð gös geta myndast ef járnblendið blotnar. Er þá ekki um annað að velja en að bíða þar til styttir upp og stundum gefst þá tækifæri til að svipast um nágrenni hafnarinnar. Man ég sérstaklega eftir ferð til Chicago fyrir mörgum árum þar sem sækja þurfti farm af þurrefni sem sturtaðist í lestina af svo miklum krafti að mikið reykský þyrlaðist upp og þurfti að gera hlé á störfum um leið og birti til fram í myrkur. Fyrir vikið gat ég kíkt á Chicago-borg. Hjá Eimskip er ég ekki í slíkum flutningum núna. Við erum á skipum sem eru í mjög föstum og hröðum áætlunum og engar tafir nema vegna mjög slæms veðurs.“

Hinn nýi Lagarfoss kemur til Reykjavíkur í fyrsta sinn árið …
Hinn nýi Lagarfoss kemur til Reykjavíkur í fyrsta sinn árið 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Inga og eiginmaður hennar áttu ekki í neinum vanda með að skipta á milli sín húsverkum og uppeldisskyldum og ríkti góð sátt um það fyrirkomulag sem var á heimilishaldi þeirra og störfum, en ættingjar og vinir hlupu í skarðið þegar vinnuskyldur þeirra sköruðust. „Það var gaman að sjá að fyrir vikið urðu hann og sonur okkar enn nánari og hafa fengið að kynnast vel þegar þeir voru tveir einir heima. Maðurinn minn ákvað á endanum að skipta um starfsvettvang og vera alfarið í landi,“ segir Inga. „Því miður var það algengt, og er að sumu leyti enn, að sjómenn missa oft af því að tengjast börnunum sínum því þeir eru svo lengi í burtu og nánast eins og gestir þá sjaldan þeir eru í landi.“

Gervihnattasíminn bara notaður á aðfangadag

Blessunarlega er starf sjómannsins mun fjölskylduvænna í dag en það var fyrir 20 eða 30 árum og segir Inga það hreinlega frábært að sjá sjómenn ræða við maka sína og börn í gegnum myndfundaforrit. Sumir hafi það fyrir reglu að bjóða börnunum sínum góða nótt fyrir háttinn hvern einasta dag og jafnvel lesa fyrir þau sögur fyrir svefninn.

„Af er það sem áður var þegar fátt annað var í boði en að hringja í gegnum gervihnött og hefur mínútugjaldið sennilega verið í kringum þúsundkall. Gervihnattasímann notuðu sjómenn varla nema þegar börnin þeirra fermdust eða til að hringja stutt símtal heim á aðfangadag,“ segir Inga.

„Vinna sjómannsins hefur líka þann kost að þegar maður er heima, þá er maður heima. Vinnan er búin og fátt sem truflar það að geta átt gæðastundir með fjölskyldu og vinum. Sonur okkar hafði einmitt á orði að eftir að faðir hans hætti að sigla og fékk sér vinnu í landi, þá varð hann minna sýnilegur heima fyrir,“ segir Inga en minnir á að á meðan fólk er á sjó þá sé ekkert sem heitir að stökkva í land ef eitthvað bjátar á. „Það er kannski það erfiðasta; að ef eitthvað kemur fyrir heima; ef einhver nákominn manni veikist eða slasast, þá er ekkert sem sjómaðurinn getur gert annað en að vera í sambandi símleiðis, og ekki hægt að komast aftur heim fyrr en túrnum er lokið.“

Skólastjórinn hringdi í hana

Inga var þriðja konan til að setjast á skólabekk hjá Stýrimannaskólanum, en hún var á báðum áttum um það hvort hún ætti að frekar að fara í háskólanám og hafði sótt um á báðum stöðum. „Jónas Sigurðsson, sem þá var skólastjóri Stýrimannaskólans, frétti af umsókn minni og hringdi í mig persónulega til að tjá mér að hann hefði skráð mig í bekk fyrir lengra komna, þar sem ég væri þegar með stúdentspróf og orðin tvítug, og sagði mér hvenær ég ætti að mæta. Ég sló til en var ekki alveg viss í minni sök þar til ég kom í skólann og uppgötvaði hvað mér þótti námið skemmtilegt. Hef ég aldrei séð eftir þessu vali.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.9.24 561,35 kr/kg
Þorskur, slægður 18.9.24 601,90 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.9.24 245,22 kr/kg
Ýsa, slægð 18.9.24 294,73 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.9.24 221,87 kr/kg
Ufsi, slægður 18.9.24 284,94 kr/kg
Djúpkarfi 12.9.24 378,00 kr/kg
Gullkarfi 18.9.24 275,09 kr/kg
Litli karfi 16.9.24 10,34 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.9.24 314,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.9.24 Sigrún EA 52 Handfæri
Þorskur 417 kg
Ufsi 275 kg
Karfi 24 kg
Samtals 716 kg
18.9.24 Vésteinn GK 88 Lína
Karfi 309 kg
Keila 292 kg
Hlýri 205 kg
Þorskur 162 kg
Ufsi 21 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 998 kg
18.9.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 207 kg
Hlýri 189 kg
Karfi 137 kg
Þorskur 83 kg
Ufsi 8 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 629 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 18.9.24 561,35 kr/kg
Þorskur, slægður 18.9.24 601,90 kr/kg
Ýsa, óslægð 18.9.24 245,22 kr/kg
Ýsa, slægð 18.9.24 294,73 kr/kg
Ufsi, óslægður 18.9.24 221,87 kr/kg
Ufsi, slægður 18.9.24 284,94 kr/kg
Djúpkarfi 12.9.24 378,00 kr/kg
Gullkarfi 18.9.24 275,09 kr/kg
Litli karfi 16.9.24 10,34 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.9.24 314,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

18.9.24 Sigrún EA 52 Handfæri
Þorskur 417 kg
Ufsi 275 kg
Karfi 24 kg
Samtals 716 kg
18.9.24 Vésteinn GK 88 Lína
Karfi 309 kg
Keila 292 kg
Hlýri 205 kg
Þorskur 162 kg
Ufsi 21 kg
Steinbítur 9 kg
Samtals 998 kg
18.9.24 Auður Vésteins SU 88 Lína
Keila 207 kg
Hlýri 189 kg
Karfi 137 kg
Þorskur 83 kg
Ufsi 8 kg
Steinbítur 5 kg
Samtals 629 kg

Skoða allar landanir »