Sat á klósettinu og veggurinn féll

Olav Viksmo-Slettan, Eurovision-þul norska ríkisútvarpsins NRK, varð ekki um sel …
Olav Viksmo-Slettan, Eurovision-þul norska ríkisútvarpsins NRK, varð ekki um sel þegar hann sat á klósettinu á keppninni í Baku í Aserbaídsjan vorið 2012 og veggurinn hrundi skyndilega. Ljósmynd/Jon Marius Hyttebakk/NRK

„Versta minningin er frá Baku [höfuðborg Aserbaídsjan] árið 2012. Þar var ekki búið að ganga alveg frá klósettunum og frágangurinn var heldur ekkert sérstaklega traustur. Ég sat á klósettinu þegar veggurinn hrundi,“ segir Olav Viksmo-Slettan, Eurovision-þulur norska ríkisútvarpsins NRK, þegar Tel Aviv-blaðamenn ríkisútvarpsins, biðja hann og sænska þulinn, Edward af Sillén, að rifja upp bestu og verstu Eurovision-minningar sínar síðasta áratuginn fyrir NRK.

Viksmo-Slettan heldur áfram og fer yfir í næstverstu minningu sína, sú er frá keppninni í Düsseldorf í Þýskalandi árið 2011. „Þá lentum við í tæknivandræðum, misstum hljóðið í miðri útsendingu. Ég þurfti að lýsa keppninni gegnum síma í heilan klukkutíma,“ segir þulurinn frá.

Ekki skánar það þegar Viksmo-Slettan rifjar upp Eurovision-keppnina í Kaupmannahöfn árið 2014. „Þularbúrinu hafði þá verið komið fyrir á vinnupalli [n. stillas] sem dúaði upp og niður. Ég varð sjóveikur í lýsingunni, þetta var alveg fáránlegt.“

Fannst íslenska lagið frábært

Þegar mbl.is hafði samband við Viksmo-Slettan, sem þá var að pakka niður fyrir heimför frá Tel Aviv í dag, og bað um að fá að nota mynd norska ríkisútvarpsins af honum, sagði þulurinn strax í upphafi samtals: „Eitt skal ég segja ykkur á Íslandi. Mér fannst íslenska lagið alveg frábært, frammistaða þeirra á sviðinu var ógleymanleg.“

Hverjar eru þá bestu minningar hans frá Eurovision-keppnum?

„Í fyrsta sæti set ég 2010 í Ósló. Þetta var bara svo flott gert hjá okkur, gríðarleg stemmning og við hjá NRK vorum ákaflega sátt við útkomuna,“ segir Viksmo-Slettan. Reyndar tók útvarpsstjóri NRK árið 2010, Hans-Tore Bjerkaas, takmarkað undir þetta á sínum tíma eftir að keppnin 2010 fór freklega fram úr fjárfralögum ríkisútvarpsins og sór hann við skegg sitt og skalla að Noregur héldi keppnina aldrei aftur.

Næstbesta minnig Viksmo-Slettan frá Eurovision er frá keppninni í Malmö í Svíþjóð vorið 2013 þegar hin norska Margaret Berger flutti framlag Noregs, „I Feed You My Love“. Rifjar Viksmo-Slettan þá upp að morgunverðarhlaðborð blaðamanna hafi aðeins verið í fimm metra fjarlægð frá þularbúrinu. „Ég hugsaði bara „I Feed You My Bacon“ því dásamlegur bakki með beikoni var innan seilingar,“ segir þulurinn.

Í þriðja sæti setur hann sænska lagið „Undo“ sem Sanna Nielsen söng í Kaupmannahafnarkeppninni vorið 2014. „Það var rosalega flott lag. Og svo fékk ég að faðma hana,“ segir Viksmo-Slettan og rifjar dreyminn upp keppnina í Kaupmannahöfn fyrir fimm árum.

„Hélt ekki að við fengjum að gera þetta“

Næst var röðin komin að Edward af Sillén sem lýsir keppninni fyrir hönd sænska ríkisútvarpsins SVT. „Ég verð að setja það í toppsætið þegar ég fékk að eiga hlut í að semja skemmtiatriðið „Love, Love, Peace, Peace“,“ segist Sillén frá en þar var um að ræða söngatriði sem Måns Zelmerlöw, sigurvegari fyrir hönd Svíþjóðar árið 2015, og Petra Mede fluttu í dómarahléi keppninnar í Stokkhólmi árið 2016. „Ég hélt í fyrstu ekki að við fengjum að gera þetta en svo var það heimilað og að sjá þetta verða að veruleika er ein af mínum bestu minningum,“ segir Sillén.

Í annað sætið yfir bestu minningar sínar setur hann sigur sænsku söngkonunnar Loreen og lagsins Euphoria í Baku í Aserbaídsjan vorið 2012. „Það er hreinn draumur að fá að lýsa keppninni þegar landið þitt vinnur,“ segir Sillén.

Í þriðja sætið setur Sillén framlag Noregs, „A Monster Like Me“ sem sveitin Debrah Scarlett og Mørland flutti í Vín í Austurríki 2015. „Þetta er uppáhaldslagið mitt í Eurovision, það varð dauðaþögn í þulastúkunni heilar þrjár mínútur eftir flutninginn,“ segir Sillén hrærður.

Lýstu keppninni í náttfötunum

En hverjar eru þá verstu minningar Svíans frá Eurovision? 

„Tímamismunurinn í Baku 2012,“ er það sem Svíinn setur í efsta sætið þar. „Við byrjuðum á miðnætti að staðartíma og vorum búin klukkan 03:30 um nóttina,“ segir Sillén. „Við vorum komin í náttfötin okkar þar sem við sátum og lýstum keppninni!“

Í annað sætið setur hann það sama og norski starfsbróðirinn Viksmo-Slettan, hljóðleysið í Düsseldorf vorið 2011. „Það var alveg hrikalegt, ég þurfti að lýsa keppninni gegnum síma til SVT [sænska ríkisútvarpsins].“

Í þriðja sæti yfir sína verstu Eurovision-minningu velur Edward af Sillén þegar sænska lagið, This is My Life í flutningi Önnu Bergendahl komst ekki upp úr undanrásum fyrir keppnina í Ósló vorið 2010. „Þetta er ein af mínum verstu minningum og það er ekki vegna útsetningar lagsins, hún var óaðfinnanleg. Það var mér ákaflega þungbært að lýsa keppninni án Svíþjóðar,“ segir Sillén.

Þeir nágrannarnir, Olav Viksmo-Slettan og Edward af Sillén, eru orðnir býsna góðir kunningjar, hafandi báðir lýst Eurovision fyrir sín ríkisútvörp í áratug. „Ég elska svo að vinna við þetta og þetta eru svo góðir samstarfsfélagar. Við hittumst alltaf aftur og aftur, einu sinni á ári, þegar söngvakeppnin er haldin,“ segir Sillén að skilnaði við NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson