Kvikmyndastjarnan og kyntáknið Connery

Connery sem Bond við gerð Never Say Never Again árið …
Connery sem Bond við gerð Never Say Never Again árið 1982. AFP

Skoski leikarinn Sean Connery, sem er látinn, níræður að aldri, var ein mesta kvikmyndastjarna Bretlandseyja og öðlaðist heimsfrægð og aðdáun fyrir að hafa leikið James Bond, njósnara hennar hátignar.

Óskarsverðlaunaleikarans verður minnst fyrir silkimjúka túlkun sína á 007 og taldist hann lengi vel vera mikið kyntákn.

Connery var stoltur Skoti og stutti hann Skoska þjóðarflokkinn (SNP), sem hefur barist fyrir aðskilnaði Skotlands og Bretlands.

Connery á Cannes-hátíðinni árið 1999.
Connery á Cannes-hátíðinni árið 1999. AFP

„Bond, James Bond“

Hann var fyrsti leikarinn til að segja hinn ógleymanlega frasa „Bond, James Bond“. Alls voru Bond-myndirnar sem hann lék í sex talsins en njósnarinn var hugarsmíð rithöfundarins Ians Fleming.

Connery lék Bond í „Dr. No" (1962), uppáhaldi sínu „From Russia With Love" (1963), „Goldfinger" (1964), „Thunderball" (1965), „You Only Live Twice" (1967) og „Diamonds Are Forever" (1971).

Hann átti endurkomu sem breski njósnarinn í óopinberu Bond-myndinni „Never Say Never Again“ árið 1983 og sex árum síðar var hann valinn kynþokkafyllsti karlmaður heims af tímaritinu People Magazine, þá alveg að verða sextugur.

Thomas Sean Connery fæddist 25. ágúst 1930 í verkamannahverfinu Fountainbridge í Edinborg. Faðir hans var vörubílstjóri og móðir hans starfaði í verksmiðju. Hann átti tvo yngri bræður.

Á tennisleik árið 2013.
Á tennisleik árið 2013. AFP

„Æska mín lofaði ekkert sérlega góðu fyrir framtíðina en þegar ég var ungur vissum við ekki að okkur skorti nokkurn skapaðan hlut vegna þess að gátum ekki borið okkur saman við neina aðra og það er ákveðið frelsi fólgið í því,“ sagði Connery er hann tók á móti heiðursverðlaunum Kvikmyndastofnunar Bandaríkjanna árið 2006.

„Ég fékk tækifæri, stórt tækifæri þegar ég var fimm ára og það hefur tekið mig meira en 70 ár að átta mig á því. Sjáið til, þegar ég var fimm ára lærði ég að lesa. Svo einfalt er það og magnað.“

Til liðs við sjóherinn

Hann hætti í skóla þegar hann þrettán ára og hóf störf sem mjólkurpóstur áður en hann gekk til liðs við konunglega sjóherinn þegar hann var sextán ára. Þar varð hann að hætta þremur árum síðar vegna magasárs. Hann nældi sér í tvö húðflúr í sjóhernum, annars vegar „Mamma og pabbi“ og hins vegar „Skotland að eilífu“.

Connery sneri aftur til Edinborgar og starfaði við að leggja múrsteina, sem strandvörður og líkkistuslípari, meðal annars.

Hann hafði einnig áhuga á líkamsrækt og það varð til þess að hann tók þátt í keppninni Herra alheimur. Þar var hann hvattur af náunga sem tók einnig þátt til að sækja um hlutverk sem leikari.

Á Wimbledon-mótinu í tennis árið 2005.
Á Wimbledon-mótinu í tennis árið 2005. AFP

Connery fékk lítil hlutverk í nokkur ár þangað til stóra tækifærið kom í myndinni „Another Time, Another Place“ sem kom út 1958. Í kjölfarið hreppti hann hlutverk James Bond. Það hlutverk hjálpaði honum við að landa öðru hlutverki í mynd Alfreds Hitchcock, tryllinum „Marnie“.

Á meðal mynda sem hann lék í eftir að ferlinum sem 007 lauk, ef undan er skilin „Never Say Never Again“, voru „Murder on the Orient Express" (1974), „The Man Who Would Be King" (1975), „Robin and Marian" (1976) og „Highlander" (1986). Frammistaða hans sem pabbi Indiana Jones í „Indiana Jones and the Last Crusade“ var einnig eftirminnileg.

Hann vann Óskarsverðlaunin árið 1988 fyrir aukahlutverk sitt í „The Untouchables“ þar sem hann lék Jim Malone. „Það eru sjö sannkallaðar kvikmyndastjörnur í heiminum í dag og Sean er einn af þeim,“ sagði leikstjórinn Steven Spielberg.

Sean Connery árið 1981 ásamt eiginkonu sinni Micheline Roquebrune, Jean-Pierre …
Sean Connery árið 1981 ásamt eiginkonu sinni Micheline Roquebrune, Jean-Pierre Cassel og eiginkonu hans Anne Cassel. AFP

Á tíunda áratugnum framleiddi Connery margar af myndunum sem hann lék í, þar á meðal „The Hunt for Red October“ (1990), „Rising Sun" (1993) á móti Wesley Snipes, „The Rock" (1996) og „Entrapment" (1999) á móti Catherine Zeta-Jones.

Eftir að kvikmyndin „The League of Extraordinary Gentlemen" kom út árið 2003 ákvað hann að hætta að leika.

Elísabet Englandsdrottning sæmdi Connery riddaratign árið 2000 og að sjálfsögðu var leikarinn klæddur skosku pilsi. „Ég hef sjaldan verið jafn stoltur,“ sagði hann við þetta tækifæri.

Hann var einnig heiðraður af Edinborg og var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í St. Andrews. Sömuleiðis hlaut hann frönsku heiðursnafnbótina „Legion d'Honneur“.

Connery vann bresku BAFTA-verðlaunin árið 1988 fyrir leik sinn í Nafni rósarinnar. Einnig hlaut hann heiðursverðlaun BAFTA árið 1998.

Þrátt fyrir ást sína á Skotlandi bjó Connery í marga áratugi í Marbella á Spáni og á Bahama-eyjum til að þurfa ekki að greiða eins háa skatta og í heimalandi sínu. „Ég greiddi 98 prósenta skatt. Ég þénaði allan þennan pening og lék í kvikmyndum en átti ekkert,“ sagði hann um ástæðuna fyrir því að hann flutti.

Leikarinn kvæntist síðari eiginkonu sinni, frönsku listakonunni Micheline Roquebrune, árið 1975, skömmu eftir að hann skildi við áströlsku leikkonuna Diane Cilento. Með henni eignaðist hann soninn Jason, sem er leikari.

Connery og Diane Cilento ásamt Elísabetu Englandsdrottningu árið 1965.
Connery og Diane Cilento ásamt Elísabetu Englandsdrottningu árið 1965. AFP

Þrátt fyrir að hafa neitað ásökunum Cilento um að hann hafi lamið hana, setti hann fram umdeild ummæli síðar um að það væri réttlætanlegt við ákveðnar kringumstæður fyrir menn að slá eiginkonur sínar.

Cilento kenndi slæmu uppeldi um deilur þeirra hjóna en Connery leit á bakgrunn sinn sem lykilinn að frama sínum í leiklistinni.

„Styrkur minn sem leikari var að ég hélt mig nærri mínum sanna kjarna, sem hefur eitthvað að gera með rödd, tónlist, eitthvað sem tengist mikið bakgrunni mínum,“ sagði hann við The New York Times.

mbl.is
Vika 22 Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Yrsa Sigurðardóttir
3
Unnur Lilja Aradóttir
4
Steindór Ívarsson
5
Anna Sundbeck Klav

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Afmælisbörn hafa í hyggju að njóta dagsins til afþreyinga eða samskipta við vini. Farðu varlega. Að gera það sama aftur og aftur leiðir augljóslega til sömu niðurstöðu.
Vika 22 Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Yrsa Sigurðardóttir
3
Unnur Lilja Aradóttir
4
Steindór Ívarsson
5
Anna Sundbeck Klav

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Afmælisbörn hafa í hyggju að njóta dagsins til afþreyinga eða samskipta við vini. Farðu varlega. Að gera það sama aftur og aftur leiðir augljóslega til sömu niðurstöðu.