Stutt en kærkomið frí á heimaslóðum

Kórónuveiran Covid-19 | 6. júlí 2020

Stutt en kærkomið frí á heimaslóðum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Sigrún María Kristjánsdóttir, kona hans, fengu kærkomna hvíld frá kórónuveiruamstrinu um helgina og skelltu sér til Vestmannaeyja en þar fór fram árleg goslokahátíð.

Stutt en kærkomið frí á heimaslóðum

Kórónuveiran Covid-19 | 6. júlí 2020

Víðir og Sigrún á heimaslóðum.
Víðir og Sigrún á heimaslóðum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Sigrún María Kristjánsdóttir, kona hans, fengu kærkomna hvíld frá kórónuveiruamstrinu um helgina og skelltu sér til Vestmannaeyja en þar fór fram árleg goslokahátíð.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Sigrún María Kristjánsdóttir, kona hans, fengu kærkomna hvíld frá kórónuveiruamstrinu um helgina og skelltu sér til Vestmannaeyja en þar fór fram árleg goslokahátíð.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Við drifum okkur á föstudagskvöldið og nutum ýmissa dagskráratriða, fórum í langa gönguferð og skelltum okkur í golf,“ segir Víðir um heimsóknina á heimaslóðir í samtali við mbl.is, en hann er fæddur og uppalinn í Eyjum. Hann viðurkennir að það hafi verið „hrikalega gott“ að fá smá frí.

Víðir hefur staðið vaktina í fremstu víglínu almannavarna frá því í febrúar auk þess að halda landsmönnum upplýstum á blaðamannafundum, sem blaðamanni reiknast til að slagi í 100 frá því hann sat fyrsta fundinn 28. febrúar.

Spurður hvort hann eigi ekki orðið ansi marga uppsafnaða frídaga, hlær Víðir við og segir að það hljóti að vera. „En ég stefni á að taka gott frí seinni partinn í júlí og fram í ágúst.“

Fóru gætilega, að degi til

Auðvitað verður ekki hjá því komist að spyrja Víði út í ástand sóttvarna í Eyjum. „Mér fannst menn fara nokkuð gætilega að deginum til. Það var alls staðar spritt og Vestmannaeyingar mjög passasamir,“ segir hann og bætir við að margir hafi séð ástæðu til að benda honum á að sóttvarnir hjá þeim væru til fyrirmyndar.

Goslokahátíðin í ár var lágstemmdari en oft áður vegna aðstæðna í samfélaginu. Þrátt fyrir það segir Víðir hana hafa verið hina skemmtilegustu. „Maður hitti margt fólk sem maður þekkir og veðrið var þvílíkt gott.“

Klukkan 23 lokaði bærinn í samræmi við sóttvarnareglur en Víðir segir að hátíðargestir hafi ekki látið það angra sig. Hátíðin hafi verið öðruvísi í ár en áherslan lögð á fjölskylduskemmtun. „Það var rólegt yfir bænum um miðnætti en fólk frekar í heimapartíum,“ segir Víðir sem kíkti sjálfur í tvö slík áður en hann lét gott heita.

Ekki er að vænta breytinga á reglum um afgreiðslutíma skemmtistaða fyrr en í fyrsta lagi 26. júlí, en svo lengi gildir núverandi reglugerð.

mbl.is