Indverska afbrigðið greindist á landamærum

Kórónuveiran COVID-19 | 18. júní 2021

Indverska afbrigðið greindist á landamærum

Indverska afbrigði kórónuveirunnar (Delta-afbrigðið) greindist á landamærum Íslands í gær í tveimur einstaklingum frá Mið-Austurlöndum.

Indverska afbrigðið greindist á landamærum

Kórónuveiran COVID-19 | 18. júní 2021

Tvö tilfelli indverska afbrigðis kórónuveirunnar greindust á landamærum Íslands í …
Tvö tilfelli indverska afbrigðis kórónuveirunnar greindust á landamærum Íslands í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Indverska afbrigði kórónuveirunnar (Delta-afbrigðið) greindist á landamærum Íslands í gær í tveimur einstaklingum frá Mið-Austurlöndum.

Indverska afbrigði kórónuveirunnar (Delta-afbrigðið) greindist á landamærum Íslands í gær í tveimur einstaklingum frá Mið-Austurlöndum.

Fólkið hafði verið hér og var á leið aftur úr landi. Ekki er talin hætta á að afbrigðið muni dreifa sér hér innanlands enda hélt fólkið sig út af fyrir sig. Enginn hefur þurft í sóttkví vegna þessara tveggja smita. 

Þetta segir Guðrún Aspelund, staðgengill sóttvarnalæknis, í samtali við mbl.is. 

Hún segir einnig að sigurinn sé ekki enn unninn hér á landi í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Til að mynda sé sú staðreynd að enn greinist afbrigði veirunnar í nálægð við Ísland, sem talin eru skæðari enn önnur, forsenda þess að enn sé haldið í sóttvarnatakmarkanir innanlands. 

Þó styttist í að öllum takmörkunum verði aflétt innanlands en Guðrún segir að það verði „ekki alveg strax“.

Guðrún Aspelund, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis.
Guðrún Aspelund, sérfræðingur á sviði sóttvarna hjá embætti landlæknis. Ljósmynd/Landlæknir

„Það eru auðvitað ansi mörg smit enn þá í mörgum löndum og mörgum löndum jafnvel hérna í kringum okkur. Í Bretlandi til dæmis hefur smitum fjölgað þrátt fyrir víðtæka bólusetningu þar. Og það gildir það sama hér og annars staðar að ein sprauta er ekki talin full vörn,“ segir Guðrún. 

„Það hefur sýnt sig núna í rannsóknum að sum þessara afbrigða veirunnar, eins og til dæmis þetta Delta-afbrigði, sem er nú ekki hér á landi reyndar sem betur fer, að þá skiptir máli að vera kominn með þó nokkuð mikla vörn. Þannig að það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga en auðvitað er ástandið hérna gott og ef við höldum áfram með aðgerðirnar á landamærunum þá er alveg fyrirséð að það verði slakað eitthvað á hér.“

Íslendingar geta um frjálst höfuð strokið, svona að mestu leyti. …
Íslendingar geta um frjálst höfuð strokið, svona að mestu leyti. Fjöldatakmarkanir miðast nú við 300 manns, en stjórnvöld höfðu lofað að öllum takmörkunum yrði aflétt um leið og 75% landsmanna væru búin að fá fyrstu sprautuna. Nú eru mun fleiri en það komnir með einhverja vörn og enn eru takmarkanir í gildi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Tala fyrir opnun landamæra

Landamærin eru enda helsta þrætueplið þessa dagana: Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir við Morgunblaðið í dag að hún voni að bráðlega verði sóttkví við komuna til Íslands afnumin, það muni blása lífi í ferðaþjónustuna hér á landi. 

Guðrún tekur fyrir að það sé ráðlegt enn um sinn. 

„Mér finnst það ekki tímabært eins og er þegar smit eru að því marki sem þau eru erlendis. Við erum í raun að hætta sóttkví hjá stórum hluta ferðamanna með því að hætta skimun hjá bólusettum og þeim sem eru með fyrri sýkingu núna 1. júlí, eins og hefur verið gefið út að verði væntanlega gert að öllu óbreyttu. En að hætta að gera það hjá öllum, það er að segja hjá þeim sem eru ekki bólusettir og ekki með fyrri sýkingu, það finnst mér ekki tímabært. 

Þá bjóðum við hættunni heim, eða hvað?

„Já, það þarf ekki mikið til.“

mbl.is